Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Suðurríkjaprestur segir Ísland „land bastarða“

27.04.2016 - 08:26
Steven Anderson, prestur í baptistakirkju í Tempe, Arizona, fór hörðum orðum um Ísland og íslenskt samfélag í predikun sinni á sunnudag. Anderson vitnaði í umfjöllun CNN en þar var meðal annars fullyrt að 67 prósent barna hér á landi fæddust utan hjónabands. Anderson þykir ekki merkilegur pappír vestanhafs og hefur ítrekað komið sér í fréttirnar fyrir hatursorðræðu gegn hinsegin fólki og gyðingum.

Anderson virtist vera mikið niðri í predikun sinni . Hann benti á að Bandaríkin stæðu Íslandi ekki langt að baki; þar fæddust fjörutíu prósent barna utan hjónabands. „En Íslendingar,  þeir eru stoltir af því að vera land bastarða,“ sagði Anderson meðal annars.

Hann sagði að bandaríska þjóðin þyrfti og yrði að snúa sér aftur að siðferði eins og það væri kennt í Biblíunni. „Þannig að við verðum ekki eins og Ísland: land bastarða,“ sagði Anderson. Og ef fólki fyndist það móðgandi að hann notaði orðið „bastarður“ þá væri það ekki á réttum stað. „Og ef fólki þykir orðræða mín móðgandi, þá finnst því Biblían verða móðgun við sig.“

Og svona hélt Anderson áfram, vísaði í hinar og þessar tilvitnanir úr Gamla testamentinu þar sem fordæmt er að fólk eignist börn utan hjónabands og sagt hvernig á að koma fram við slík börn. „Og þótt við lifum ekki á tímum Gamla testamentisins þá sést þar að það er ekki gott að vera bastarður.“

Anderson sagði að Íslendingar ættu að skammast sín - að svona mörg börn skyldu vera getin utan hjónabands væri synd. „Þeir eru stoltir af því sem þeir ættu í raun og veru að skammast sín fyrir,“ og bætti því við að Ísland væri „feminískt helvíti“.

Anderson þessi þykir umdeildur í meira lagi vestanhafs og hefur áður komið sér í fréttirnar fyrir hatursorðræðu, meðal annars gegn hinsegin fólki og gyðingum.   Í desember 2014 vöktu orð hans um AIDS hörð viðbrögð.  Þar sagði hana eina leiðina til að útrýma veirunni væri að drepa homma. 

Engu minni athygli fengu orð hans um gyðinga og þá sem lifðu helförina af. Hann sagði þá vera „lygara á launum“ og að landið Ísrael væri „djöfulleg svik“.

Umfjöllun CNN um Ísland vakti mikla athygli en hana var að finna í þættinum The Wonder List. Þar velti blaðamaðurinn Bill Weir því fyrir sér hvernig samfélag myndi líta út án hjónabands.  

Bryndís Ásmundsdóttir, sem CNN ræddi við, varð fyrir aðkasti í ummælum við myndbandið á You Tube.  Hún skrifaði færslu á Facebook þar sem hún vakti athygli á því hversu mikil heift virtist hafa gripið karlmenn um allan heim vegna greinarinnar. „Siggi er samt sár hvað hans hórdómur fær litla athygli og þykir einhvern veginn minna tiltökumál. Blygðunarleysi kvenna er einhvern veginn fréttnæmara og skemmtilegra,“ skrifaði Bryndís í kaldhæðnum tón.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV