Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Suður-Kórea er höfrungur á milli stórhvela

03.06.2015 - 16:40
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons - Wikimedia commons
Tengslin við Kína skipta efnahag Suður-Kóreu miklu máli á meðan tengslin við Bandaríkin eru pólitísk og varða þjóðaröryggi. Bandaríkin og Kína eru hvalir og Suður-Kórea er eins og höfrungur sem reynir að svamla á milli þeirra; halda friðinn, styggja engan en hámarka hagsmuni sína á sama tíma.

Kína bjargaði kapítalismanum

Jong segir að öld Kína sé upp runnin. Á meðan Vesturlönd glímdu við efnahagslegar þrengingar tókst Kínverjum að heimta kapítalismann úr helju og hugsanlega bjarga honum. Suður-Kórea á í dag fjórðung tekna sinna undir Kína, ríkið er helsta viðskiptaland þess og viðskiptin við það hafa færst mjög í aukana á meðan dregið hefur úr viðskiptum við Bandaríkin og Japan. Í fyrra skrifuðu Suður-Kórea og Kína undir sögulegan fríverslunarsamning, fyrsta tvíhliða fríverslunarsamninginn sem undirritaður hefur verið á svæðinu.

Reynir að hámarka hagsmuni sína

Tengslin við Kína skipta efnahag Suður-Kóreu öllu máli á meðan tengslin við Bandaríkin varða þjóðaröryggi og varnir gegn Norður-Kóreu. Stirð tengsl Kína og Bandaríkjanna og ólík afstaða þeirra til Norður-Kóreu setja þó ákveðið strik í reikninginn og gera það að verkum að Suður-Kórea þarf að vanda sig. Jong segir að Suður-Kórea reyni að hámarka hagsmuni sína. Fríverslunarsamningurinn við Kína sé liður í því og sama máli gegni um aðild landsins að nýja asíska fjárfestingabankanum AIIB sem 57 ríki eru stofnaðilar að, Ísland þar með talið. Á sama tíma reyni landið að viðhalda sterkum tengslum við Bandaríkin. Ríkið hagi sér eins og höfrungur á milli tveggja stórhvela. Það vilji gera sig gildandi sem sterkan samstarfsaðila á svæðinu og hámarka hagsmuni sína á sama tíma.

Jákvæðari gagnvart Bandaríkjamönnum

Almenningur í landinu telur, samkvæmt skoðanakönnunum, að Bandaríkin og Kína verði aðsópsmest í heimspólitíkinni næsta áratuginn. Um 80% telja að þessi tvö ríki verði valdamestu ríki heims næstu tíu árin, miklu valdameiri en Japan eða Evrópusambandið. Bandaríkin eru þó betur liðin, 80% landsmanna líta Bandaríkin jákvæðum augum en tæp 60% eru jákvæð gagnvart Kína. Bandaríkin vilja setja á fót flugskeytavarnarkerfi í landinu í samvinnu við suður-kóresk yfirvöld en ákvörðunartöku sem að því lýtur hefur verið frestað. Jong segir það hafa verið viturlegt. Suður-Kóreumenn vilji ekki fá Kínverja upp á móti sér. Þá segir hann að sennilega komi slíkt kerfi sér ekki vel fyrir Kóreuskagann vegna smæðar hans og henti illa til að uppræta ógnina í norðri.

Norður-Kórea flækir tengslin

Tengsl Kína við Norður-Kóreu eru sterk og saga landanna samtvinnuð. Viðskipti Norður-Kóreumanna við Kínverja hafa haldið uppi hagvexti í landinu þrátt fyrir gagnrýni alþjóðasamfélagsins sem beitir Norður-Kóreu viðskiptaþvingunum. Ólík tengsl við Norður-Kóreu flækja samband Suður-Kóreu og Kína. Jong segir þetta þó ekki gera Kína að ógn í augum Kóreumanna. Kína sé fyrst og fremst tækifæri.

Skapa sér sérstöðu á sviði íhlutaframleiðslu

Suður-Kóreumenn eru efnahagslega háðir Kínverjum og þeir reyna að sjá til þess að Kínverjar séu að einhverju leyti háðir þeim líka, þannig að tengslin verði ekki algerlega ósamhverf. Þeir hafa skapað sér sérstöðu á markaði með íhluti fyrir kínverska raftækjaframleiðslu. Jong segir öllu máli skipta, fyrir sjálfbærni suður-kóreska hagkerfisins, að vera vakandi fyrir þörfum Kína.

Mannréttindabrot í skjóli stöðugleika

Umsvif Kínverja eru mikil og þeirra gætir víða. Jong hvetur fólk til þess að spyrja sig, hvernig Kína kæmi sér best fyrir heiminn? Hvernig Kína kæmi sér best fyrir Ísland? Hann er afdráttarlaus í svörum þegar hann er spurður að því hvernig Kína komi Suður-Kóreu best. Það sé stöðugt Kína. Þess vegna skipti Suður-Kóreumenn sér lítið sem ekkert af mannréttindabrotum Kínverja. Í því felst ákveðinn tvískinnungur þar sem þeir skipta sér mikið af mannréttindabrotum í Norður-Kóreu. Hann segir stjórnvöld í Kína einnig kjósa stöðugleika. Stöðuga Norður-Kóreu, stöðuga Asíu. Það skýri hegðun landsins gagnvart Norður-Kóreu.

Orðaval Abes mikilvægt

Kína og Suður-Kórea hafa ólíka afstöðu til Norður-Kóreu en afstaða þeirra til Japans er keimlík. Þau eru, í sögulegu samhengi, fórnarlömb. Japan hefur ekki beðið ríkin afsökunar á voðaverkum síðari heimsstyrjaldarinnar, söguskýringar Japana falla ekki í kramið hjá þeim og þjóðirnar gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að halda Japönum utan við öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Árið í ár er mikilvægt. Það eru 70 ár líðin frá lokum síðari heimsstyrjaldar og Kínverjar og Suður-Kóreumenn munu leggja vel við hlustir þegar Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, flytur ræðu þann 15. ágúst, þegar 70 ár verða liðin frá uppgjöf Japana. Ef þau orð sem hann velur þá verða óviðeigandi að mati kínverskra og suður-kóreskra nágranna, talað um slys í stað fjöldamorða, til dæmis er ekki góðs að vænta. Það myndi að sögn Jongs leiða til óþægilegri samskipta í Norðaustur-Asíu.

Ræðir fortíðina á þriðja glasi

Tengsl Kína og Suður-Kóreu myndu styrkjast en tengsl þeirra við Japan veikjast. Fortíðin er viðkvæm og Jong segir að hann ræði hana ekki einu sinni við kollega sína. háskólaprófessora frá þessum löndum, ekki nema á öðru eða þriðja glasi. Annað sem ógnar stöðugleika á svæðinu er að sjálfsögðu Norður-Kórea. Jong segir stöðuna þar erfiða en að ekki sé útlit fyrir að ríkið fari í þrot, það muni hjakka áfram í sama farinu. Þá muni sennilegast ríkja pattstaða í samskiptum Kóreanna tveggja næstu þrjú til fimm árin. Það sé engin sameining í augsýn.