Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Styttist í að nýja WOW taki á loft

19.12.2019 - 12:15
Innlent · flug · Wow air
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv / Wiki Commons - Samsett mynd
Biðin í jómfrúarflug nýs WOW air er talin í vikum frekar en mánuðum, segir Gunnar Steinn Pálsson, talsmaður Michele Ballarin hér á landi. Ballarin, sem er stjórnarformaður bandaríska félagsins US Aerospace Associates, stendur að endurreisn flugfélagsins. Upphaflega átti fyrsta vél félagsins að taka á loft frá Keflavíkurflugvelli í október en ferlið við endurreisnina gengur hægar en vonast var til.

Ólíklegt er að það verði af jómfrúarflugi nýs WOW air á árinu, eða WOW 2 eins og Michele Ballarin kýs að kalla það. Viðskiptablaðið greinir frá. Upphaflega átti fyrsta vél félagsins að taka á loft frá Keflavíkurvelli í byrjun októbermánaðar og lenda í Washingtonborg en ferlið við endurreisnina gengur hægar en vonast var til.

Gunnar Steinn, talsmaður Ballarin, segir aðallega tvær ástæður fyrir því að endurreisn WOW hafi ekki gengið á þeim hraða sem vonast var til. „Annars vegar sökum þess að það hefur reynst flóknara en gert var ráð fyrir og hins vegar hafa aðstæður á alþjóðlegum flugmarkaði gefið tilefni til að rýna þær frekar og skoða áætlanirnar,“ segir Gunnar Steinn í samtali við Viðskiptablaðið.

Ekki sé tímabært að fara nánar út í þær áskoranir sem á vegi þeirra hafa orðið. Gunnar segir að stjór hluti starfsemi starfsemi flugfélagsins muni snúa að fraktflutningum fyrst um sinn. Farþegaflutningar aukist svo með tímanum. Vonir standi til þess að hægt verði að bjóða upp á þokkalegan fjölda áfangastaða áður en háannatími hefjist.