Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stytting vinnuviku skref í átt til jafnréttis

07.02.2018 - 19:43
Mynd með færslu
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB. Mynd: RÚV
Meðal helstu áskorana á vinnumarkaði hér á landi er að karlar vinna mun lengri vinnuviku en konur. Þriðjungur kvenna hér á landi er í hlutastarfi og megin ástæðan fyrir því er að þær bera ábyrgð á fjölskyldunni, að sögn lögfræðings BSRB. Staða kvenna á vinnumarkaði styrkist þegar vinnuvika karla er stytt, þá geta karlar frekar deilt ábyrgðinni á heimilisstörfum með konum.

Stytting vinnuvikunnar hefur gefið góða raun hjá Reykjavíkurborg og víðar þar sem veikindadögum hefur fækkað að starfsánægja aukist. Stytting vinnuvikunnar getur líka haft góð áhrif í átt til jafnréttis kynjanna. „Við vitum að þessi aukna ábyrgð sem konur axla, sérstaklega í svokölluðum ólaunuðum störfum, í heimilis- og umönnunarstörfum, skilar sér í lægri tekjum og starfsþróunarmöguleikum á vinnumarkaði,“ sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB í viðtali í sjónvarpsfréttum í kvöld.

Hún benti á að erlendar rannsóknir, sem byggja á reynslu Frakka og Svía, sýni að stytting vinnuvikunnar geti stuðlað að aukinni atvinnuþátttöku kvenna og dragi úr því að konur sæki í hlutastörf. Ef að vinnuvika karla er stytt geta þeir tekið meiri þátt í heimilisstörfunum. 

Við mælingar OECD á samþættingu atvinnulífs og fjölskyldulífs er Ísland í 33. sæti. „Við erum undir meðallagi þannig að við erum kannski ekki að standa okkur nægilega vel í mörgum þáttum,“ segir Sonja. Þrátt fyrir að jafnrétti kynjanna sé hvergi meira en á Íslandi þá sé víða pottur brotinn þegar kemur að samþættingu atvinnu og fjölskyldulífs.