Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Stytta vinnutímann og hækka grunnlaunin

13.02.2013 - 22:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslendingar þurfa að stytta vinnutímann og hækka grunnkaupið umtalsvert ef lífskjör hér eiga að vera samkeppishæf við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta segir Stefán Ólafsson, prófessor við HÍ.

Alþýðusambandið gaf út nýja skýrslu í gær þar sem borin eru saman lífskjör á Norðurlöndunum. Þar kemur fram að Íslendingar hafa heldur dregist aftur úr norrænum frændum sínum. Launþegi á Íslandi hefur allt að 30 - 60  prósent lægri tekjur ef tekið er tillit til verðlags og miðað við meðalvinnutíma í hverju landi.

Lengst af voru hér lægri skattar en í Skandinavíu og gátu Íslendingar aukið ráðstöfunartekjur sínar og einkaneyslu með mikilli vinnu. Stefán segir stöðuna vera svipaða og fyrir hruni, Íslendingar vinni að jafnaði einum degi meira en Norðmenn og þá hafi þjóðin náð að vera með þokkalega svipuð kjör og þeir. Þetta hafi gjörbreyst eftir hrun.

Ráðstöfunartekjur hafa dregist verulega saman og þær náðu botni á fyrrihluta árs 2010 en hafa aukist aðeins síðan þá. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hemilanna er þrátt fyrir það ennþá miklu lægri. Stefán segir því tímabært fyrir Íslendinga að fara inn í nútímann, stytta vinnutímann og hækka grunnkaupið talsvert því þjóðin þurfi jú að vera samkeppnishæf við hinar Norðurlandaþjóðirnar.