Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Styrkur þjóðarbúsins vegur upp áhrifin af loðnubresti

05.02.2020 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson
Þótt loðnubrestur sé skellur fyrir þjóðarbúið eru áhrifin ekki jafn slæm og áður. Þeim mun meiri eru áhrifin á einstök sveitarfélög og fyrirtæki. Vandi byggðarlaga sem helst treysta á loðnu var ræddur í ríkisstjórn í gær, en sjávarútvegsráðherra telur of snemmt að segja til um hvort gripið verði til aðgerða.

Fjölbreyttari útflutningur og vöxtur hagkerfisins gera það að verkum að loðnubrestur hefur ekki sömu þýðingu fyrir þjóðarbúið og áður. Tekjur af loðnu dreifast hins vegar á fá sveitarfélög og fyrirtæki og aflabrestur getur haft mikil staðbundin áhrif.

18 milljarða útflutningsverðmæti loðnu

Í úttekt fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur fram að útflutningsverðmæti loðnu árin 2016-2018 var að meðaltali um 18 milljarðar króna. Í ár myndi sambærileg loðnuvertíð skila um 0,5 prósentum meiri hagvexti en ella. Í fréttum RÚV í gær kom fram að Vestmannaeyjar urðu af tæpum átta milljörðum króna í fyrra vegna loðnubrests. Þá eru áhrifin einnig alvarleg í Fjarðabyggð, á Vopnafirði og víðar.

Mynd með færslu
 Mynd: Fjármála- og efnahagsráðuney

Ríkisstjórnin ræddi áhrif loðnubrests á sjávarbyggðir

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra kynnti þetta á ríkisstjórnarfundi í gær, en bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum hefur kallað eftir mótvægisaðgerðum frá stjórnvöldum. „Í mínum huga kemur allt til greina í þessum efnum. Við þekkjum það bara, af sambýli okkar við náttúruna í gegnum tíðina, að við verðum oft fyrir skellum og stöndum saman sem þjóð þegar við þurfum að takast á við afleiðingar þess. En á þessu stigi er allt of snemmt að segja nokkur fyrir um það með hvaða hætti hvort og hvernig slíkt yrði gert," segir hann.

Eldisfiskur skilar meiri verðmætum en loðna

Í úttekt fjármála- og efnahagsráðuneytisins er bent á að þessi samfélög reiði sig á fleira en loðnuveiðar. Víða eru mikil umsvif í kringum makríl, en síðasta makrílvertíð heppnaðist vel og þar er útlit fyrir aukna veiði í ár. Þá vinnur aukið sjókvíaeldi að einhverju leyti á móti loðnubresti á Austfjörðum. Áætlað útflutningsverðmæti eldisfisks árið 2019 er 25 milljarðar króna og er þar með orðið meira en verðmæti loðnu síðustu ár.