Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Styrktu flugi til þriggja staða verði hætt

16.02.2019 - 13:19
Mynd með færslu
 Mynd: Karen Rut Konráðsdóttir - RÚV
Stjórnvöld hyggjast hætta að styrkja flug til Þórshafnar, Vopnafjarðar og Hafnar og leggja í staðinn áherslu á almenningsvagna. Sveitarstjórnarfólki líst ekkert á þessa breytingu og er brugðið. 

Drög að heildarstefnu ríkisins í almenningssamgöngum hafa verið kynnt og eru nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Ætlunin er að samþætta flug, ferjur og almenningsvagna og búa til eitt leiðakerfi. 

Strætó hagstæðari tenging en flug

Í skýrslunni kemur fram að ríkið hafi styrkt flugsamgöngur um 390 milljónir árið 2017. Lagt er til að í stað flugs til Vopnafjarðar og Þórshafnar verði skipulagðar aksturstengingar við flug á Húsavík og Egilsstöðum. Um flugið til Hafnar gildi sömu rök, enda sé strætó hagstæðari tenging og óeðlilegt að á sömu leið sé haldið úti tveimur styrktum samgöngumátum. Stefnt er að því að hætta að styrkja flug til þessara staða fyrir 1. apríl á næsta ári og spara þar með um 150 milljónir á ári. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Hluti af markmiðum stjórnvalda

Sigríður Bragadóttir formaður hreppsnefndar Vopnafjarðar og Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri á Hornafirði, segja í samtali við fréttastofu að þetta komi verulega á óvart og hafa þær miklar áhyggjur af þessari stefnu.

Þrátt fyrir þetta er Höfn einn af svokölluðum hnútpunktum í nýju kerfi og þar á að vera tenging í flug, samkvæmt stefnu stjórnvalda. Farþegum með flugi til og frá Höfn hefur fjölgað og stendur sú leið best af öllum ríkisstyrktum flugleiðum. Því bendir til þess að stjórnvöld telji að flugið beri sig á markaðsforsendum. 

„Manni er bara mjög brugðið“

Farþegum í flugi til og frá Þórshöfn hefur hins vegar fækkað. Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, er afar ósáttur við þessi tíðindi. „Enda er þetta þvert á það sem bæði sveitarfélag, landshlutasamtök og eiginlega common sense segir manni að eigi að gera. Manni er bara mjög brugðið,“ segir Elías. Hann segir að þessi stefna gangi þvert gegn markmiði í samgönguáætlun, um að allir geti komist til höfuðborgarinnar á þremur og hálfum tíma.

Mynd með færslu
 Mynd: Langanesbyggð - RÚV
Elías Pétursson

Ein af röksemdum fyrir þessari breytingu er að tengja aftur brothættar byggðir, á Raufarhöfn og í Öxarfirði, við almenningssamgöngur. Akstri þangað, og raunar til Þórshafnar líka, var hætt í fyrra. „Er mögulega skynsamlegt að snúa þá akstursleiðinni við, vera áfram með flug frá Þórshöfn, sjá fyrir almenningssamgöngum í það flug og fólk er komið til Akureyrar frá Raufarhöfn á innan við tveimur tímum, versus það að vera þrjá til fjóra tíma,“ segir Elías. 

Óljós skilaboð 

Á sama tíma og ríkið hyggst hætta að styrkja flugleiðir til þessara staða, og Þórshöfn og Vopnafjörður eru ekki skilgreindir sem „hnútpunktar“ með tengingu í flug, þá er stefnt að því að niðurgreiða flugfarmiða þeirra sem búa lengst frá höfuðborginni. Elías segir að þetta séu mjög villandi skilaboð frá stjórnvöldum og kallar eftir nánari skýringum. „Ef menn ætla að hætta að niðurgreiða flug þá hlýtur það að þýða að þeir ætli að hætta að niðurgreiða það, með öðrum orðum þá er það bara á fullu verði og ég held að flug til Þórshafnar þrífist ekki á fullu verði á markaðslegum forsendum,“ segir Elías.