Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Styrkja verslanir í strjábýli um 15 milljónir

13.11.2019 - 15:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Samgöngu og sveitarstjórnarráðherra hefur staðfest tillögur valnefndar þess efnis að veita skuli styrki til verslanna í stjálbýli. Tæpum 15 milljónum var úthlutað úr sjóði á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024.

Markmið með framlögunum er að styðja verslun í skilgreindu strjálbýli fjarri stórum þjónustukjörnum, þar sem verslun hefur átt erfitt uppdráttar. Framlögin eiga að bæta rekstur verslana og skjóta frekari stoðum undir hann, til dæmis með samspili við aðra þjónustu, breyttri uppsetningu í verslunum og bættri aðkomu. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Í mörgum þeirra byggðarlaga sem hljóta styrk hefur reynst erfitt að halda úti verslun og byggðarþróun verið neikvæð. 

Alls bárust sjö umsóknir og var sótt um samtals kr. 41.549.550.00 fyrir árin 2019-2020. Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknirnar og gerði tillögur til ráðherra. 

Verkefnin sem hljóta styrk eru:

  • Búðin Borgarfirði eystri. Gusa ehf. hlýtur styrk að heildarupphæð 5 m.kr. til þriggja ára eða 2 m.kr. árið 2019, 2,1 m.kr. árið 2021 og 900 þúsund árið 2021.
  • Pöntunarþjónusta Hafnartanga, Bakkafirði. Verkefnið fær styrk að upphæð kr. 1,5 m.kr. árið 2019.
  • Brekkan Stöðvarfirði. Ástrós ehf. hlýtur styrk að heildarupphæð 6 m.kr. eða 2 m.kr. á ári í þrjú ár 2019-2021. 
  • Skerjakolla ehf. Verslunin hlýtur styrk að upphæð 2,3 m.kr.
  • Verslun á Drangsnesi. Umsækjandi er óstofnað félag um rekstur verslunar. Samþykkt hefur verið að styrkja verkefnið um 4,8 m.kr. eða 2 m.kr. árið 2020 og 2,8 m.kr. árið 2021. Styrkurinn er háður því skilyrði að gögn liggi fyrir eða samningur og að Kaupfélagið loki verslun á Drangsnesi.
  • Verslun í Ásbyrgi. Verslunin hlýtur styrk að upphæð 1 m.kr. árið 2019.

Í fyrra bárust 22 sambærilegar umsóknir og var 10 milljónum króna úthlutað til að efla verslun í strjálbýli fyrir árið 2018 en alls voru gefin fyrirheit um styrki að upphæð 25,7 milljónum króna á árunum 2018-2021.