Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stýrivextir ekki nóg til að halda jafnvægi

05.05.2019 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Ekki er nóg að hafa einvörðungu verðbólgumarkmið með stýrivöxtum sem hagstjórnartæki peningamála í litlu hagkerfi, segja hagfræðingar. Því hafi allra síðustu ár verið farið að nota fleiri leiðir til að halda stöðugleika með svonefndri þjóðhagsvarúð. 

Þjóðhagsvarúð er heildareftirlit sem felst í að líta eftir fjármálakerfinu í heild, það er að ekki bara fylgst með einstökum þáttum hagkerfisins eða hvernig einstök fjármálafyrirtæki standa, heldur fylgst með þjóðarhag eins og nafnið ber með sér. Þjóðhagsvarúð kom fyrst inn í lög um fjármálastöðugleikaráð árið 2014. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Ásgeir Jónsson

„Við höfum verið að reyna að reka verðbólgumarkmið í rauninni með bara einu stýritæki, sem hafa verið stýrivextir. Og ég held að það gangi ekki nægilega vel. Það má svona segja það að á svona síðari árum, á árunum frá fjármálakreppunni þá hefur verið reynt að hugsa um þessi mál í samhengi. Og þá að vera að beita þessum stýritækjum eins og varðandi skuldsetningu, varðandi peningamagn í umferð, og aðra hluti, að reyna að beita þeim í samhengi við peningastefnuna. Þá kannski þurfum við ekki að hækka stýrivexti eins mikið til þess að ná sama árangri. Ég tel líka eins og t.d. sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins sé mjög mikilvægt skref í þessa átt að samhæfa efnahagsstefnuna. Við séum ekki bara að hugsa um stýrivexti, við séum að hugsa um allt  fjármálakerfið saman og við þá þarna raunhagkerfið,“ segir Ásgeir Jónsson hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands.

Hann, Katrín Ólafsdóttir hagfræðilektor við Háskólann í Reykjavík og fleiri ræddu um þjóðhagsvarúð og hagstjórn í litlu opnu hagkerfi á fundi Hagsmunafélags kvenna í hagfræði og Félags viðskipta- og hagfræðinga á föstudaginn.

Katrín segir að verðbólgumarkmið sem hagstjórnartæki peningamála sé ákveðnum vandkvæðum bundið, það hafi til dæmis sýnt sig í fjármálakreppunni fyrir tíu árum. Markmiðið er nú tvö og hálft prósent og Seðlabankinn styðst við það þegar stýrivextir eru ákveðnir.  

„Það sem er að gerast núna og eins og er bara að gerast um allan heim að menn eru að horfa á þessu svokölluðu þjóðhagsvarúðartæki. Þannig að það þurfi fleiri tæki heldur en bara verðbólgumarkmiðið til þess að halda stöðugleika í peningamálum. Núna hefur verið bætt við ákveðnum þjóðhagsvarúðartækjum. En það er svona almennt viðhorf til framtíðar ef við ætlum að vera með verðbólgumarkmið þá þurfum við að styðja hana með þjóðhagsvarúðartækjum sérstaklega í svona litlu hagkerfi eins og við erum með,“ segir Katrín. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Katrín Ólafsdóttir
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV