Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stýrir endurskoðun stjórnarskrár

02.02.2018 - 16:33
Mynd með færslu
Unnur Brá Konráðsdóttir Mynd: Stjórnarráðið
Unnur Brá Konráðsdóttir hefur tekið við stöðu verkefnisstjóra vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Greint er frá þessu í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Í áætlun forsætisráðherra um vinnu við stjórnarskrá næstu árin segir að verkefnisstjórinn skuli hafa heildaryfirsýn yfir verkefnið og tengja saman helstu aðila sem að því koma. Þá á hann að vera málsvari verkefnisins og leitast við að tryggja skilvirkan framgang þess. Verkefnastjórinn starfar í umboði forsætisráðherra og er tengiliður milli ráðherra og sérfræðinganefndar og nýtur aðstoðar skrifstofu löggjafarmála í forsætisráðuneytinu. Sérfræðinganefndin verður sett á laggirnar í samráði flokka á Alþingi.

„Það er mikill akkur í því að fá reynslumikinn lögfræðing með bakgrunn úr stjórnmálum, sem þar að auki nýtur trausts þvert á flokka og í samfélaginu, til að stýra þessu vandasama verkefni næstu árin, “ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra: „Markmiðið er að ná fram áföngum við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á þessu kjörtímabili og því næsta. Við munum leita allra leiða til að sjónarmið almennings vísi veginn í þessari vinnu og sem flestir geti tekið þátt í að móta breytingartillögur. Framtíðarsýnin er að stjórnarskráin endurspegli sem best sameiginleg grunngildi þjóðarinnar og renni traustum stoðum undir lýðræðislegt réttarríki þar sem vernd mannréttinda er tryggð,“ er haft eftir forsætisráðherra á vef Stjórnarráðsins.

Unnur Brá lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2000. Hún tók sæti á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 2009 en hafði áður meðal annars starfað sem sveitarstjóri Rangárþings eystra. Unnur Brá gegndi formennsku í allsherjarnefnd frá 2013 til 2016 og var forseti Alþingis árið 2017. Nú situr hún á Alþingi sem varaþingmaður. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir