Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Styður ekki flutning Fiskistofu

30.06.2014 - 16:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi, kveðst ekki geta stutt áform ríkisstjórnarinnar um að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar. Vilhjálmur segir við fréttastofu að sem þingmaður kjördæmisins geti hann ekki séð að ákvörðunin byggi á traustum grunni.

Eins og málið hafi verið lagt fram, grundvallist það ekki á mikilli skoðun. „Ef það á að fara í svona drastískar breytingar þá viljum við fá að vita nákvæmlega hvað vakir fyrir mönnum,“ segir Vilhjálmur. Hann veltir því upp hvort bæta eigi upp fyrir flutning útgerðarfyrirtækisins Vísis með því að flytja Fiskistofu til Akureyrar.

Vilhjálmur bendir á mikilvægi stofnanaminnis, þá þekkingu sem starfsfólk býr yfir. Hætti margir við flutningin tapist þekking. „Menn verða að grundvalla það á mjög nákvæmri athugun ef það á að rífa upp heila stofnun, hvort sem henni er skipt eða hún flutt á milli landshluta,“ segir Vilhjálmur.

Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa nú gagnrýnt áform ríkisstjórnarinnar. Áður hafa Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Brynjar Níelsson og Jón Gunnarsson gagnrýnt áformin.