Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Styðja baráttu gegn mansali

05.11.2012 - 13:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslenska ríkið ætlar að styðja baráttu Rauða krossins gegn mansali í Hvíta-Rússlandi og aðstoða geðfatlaða í landinu. Rúmlega 20 milljónum króna verður veitt í þriggja ára verkefni.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða krossins á Íslandi, skrifuðu undir samstarfsyfirlýsingu þessa efnis í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er í yfirlýsingunni annars vegar kveðið á um árlegt framlag til Alþjóðaráðs Rauða krossins sem nemur um 10 milljónum króna og hins vegar um tæplega 20 milljóna króna framlag til tveggja verkefna í Hvíta-Rússlandi.

Annað verkefnið miðar að því að fræða ungmenni um hættur mansals og hvernig forðast megi að verða því að bráð. Þá verður reynt að aðstoða fórnarlömb mansals, sem komist hafa aftur heim, að aðlagast samfélaginu á nýjan leik.

Hitt verkefnið er tilraunaverkefni sem miðar að aðstoð við geðfatlaða en umræða og úrræði fyrir geðfatlaða eru mjög frumstæð þar í landi.