Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stutt í að bílar verði eins og hestar

12.01.2018 - 11:08
Mynd: yngvi / yngvi
„Ég myndi halda að eftir svona kannski tuttugu ár verði bíllinn orðinn eins og hesturinn í dag. Hann verður bara hobbý. Við eigum bílskúr fyrir utan bæinn, við getum farið þangað og bónað bílinn og hugsað um hann. Svo eru svona sér akgreinar sem við megum prófa að keyra hann á. Þetta held ég að sé raunhæf sviðsetning,“ segir Dr. Yngvi Björnsson prófessor við gervigreindarsetur HR.

Yngvi ræddi um hlutverk gervigreindar í fjórðu iðnbyltingunni í Samfélaginu á Rás 1. Hann bendir á að nú þegar sé margt í kring um okkur keyrt áfram á gervigreind og það mun bara aukast. Sjálfkeyrandi bílar verði næsta skref og hlutirnir séu farnir að gerast mjög hratt. „Það teku alltaf styttri og styttri tíma að innleiða tækniframfærir,“ segir hann og giskar á að innan tveggja ára verði akgreinar fyrir sjálfkeyrandi bíla opnaðar í Bandaríkjunum. 

Tölvur sem læra af reynslunni

Yngvi segir afar margt hafa áunnist í þróun gervigreindar á ýmsum sviðum síðasta áratuginn. Mikið sé lagt upp því núna að láta tölvur læra af reynslunni. Langt sé þó í land með að tölvur fái mennska eiginleika eins og sköpunarhæfileika og sjálfstæða hugsun. 

Gervigreind er pólitískt mál

Yngvi ræddi einnig um hvernig gervigreindin muni koma í stað margra starfa sem áður var sinnt af mannfólki. Þróun gervigreindar og fjórðu iðnbyltingarinnar sé því afskaplega mikilvæg pólitísk séð, það þurfi að sníða regluverk og gera lög, vinna gegn misskiptingu og gæta hagkerfa. Þá þurfi fólk að undirbúa sig undir heim þar sem nýrrar þekkingar og færni er krafist af þeim reglulega. Skólar þurfi að undirbúa nemendur sína fyrir það.

Hlusta má á viðtalið við Yngva í spilaranum hér að ofan.

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður