Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Sturgeon verður fyrsti ráðherra Skotlands

15.10.2014 - 10:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Nicola Sturgeon verður næsti formaður Skoska þjóðarflokksins, SNP og tekur jafnframt við embætti fyrsta ráðherra stjórnarinnar í Edinborg. Alex Salmond sagði af sér eftir að Skotar höfnuðu sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu í síðasta mánuði.

 Framboðsfrestur til formannsembættis SNP rann út í morgun og þá varð ljóst að Sturgeon verður ein í framboði. Hún hefur hingað til verið varaformaður flokksins og staðgengill Salmond sem fyrsti ráðherra.

Sturgeon tekur formlega við af Salmond í nóvember á þingi Skoska þjóðarflokksins. Hún þótti standa sig mjög vel í kosningabaráttunni fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 18. september. Þó að sjálfstæðissinnar yrðu undir hefur vegur Skoska þjóðarflokksins vaxið mjög og þúsundir gerst félagar.

Nicola Sturgeon er 44 ára, lögfræðingur að mennt. Hún hefur setið á skoska þinginu í Edinborg frá 1999 og verið varaformaður Skoska þjóðarflokksins frá 2004. Stjórnmálaskýrendur telja að hún verði ekki eins umdeild og fyrirrennari hennar, Alex Salmond, sem átti sér ekki marga aðdáendur utan eigin flokks.

Líklega verður mikilvægasta hlutverk Sturgeon á næstu vikum að semja um mjög aukna sjálfstjórn Skota, sem þrír stærstu stjórnmálaflokkar Bretlands lofuðu í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar.