Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stunga í bakið varð Takabuti að bana

30.01.2020 - 06:12
Mynd með færslu
 Mynd: Notafly - Wikimedia Commons
Örlög Takabuti frá Þebu voru ráðin þegar hún var stungin í bakið. Hún var á þrítugsaldri þegar hún lést, fyrir um 2.600 árum. Örlög hennar voru opinberuð í vikunni, þegar 185 ár voru liðin frá því að henni var komið fyrir í fornminjasafninu í Belfast í Norður-Írlandi.

Gerðar voru nokkrar rannsóknir á líki Takabuti í tilefni tímamótanna. Auk þess að finna út dánarorsök hennar kom í ljós að erfðamengi hennar er líkara Evrópubúum nútímans en þeirra sem nú búa í Egyptalandi. Ný tækni gerði safninu jafnframt kleift að skoða líkið með þrívíddarskanna. Þar sáu fornleifafræðingar og safnverðir meðal annars hjarta Takabutis, sem áður var talið að hafi ekki verið innan reifanna. Þá fannst auka tönn í gómi Takabuti, var hún því með 33 tennur í stað 32, sem er afar sjaldgæft. Loks gáfu myndir úr skannanum til kynna að Takabuti hafi verið stungin til bana ofarlega í bakið, nærri vinstri öxl.

Fréttastofa bresku sjónvarpsstöðvarinnar ITV hefur eftir Rosalie David, sérfræðingi í sögu Forn-Egypta, að rannsóknirnar á múmíu Takabuti veiti nýja innsýn í þá tíma sem hún lifði.  Múmían hefur hingað til verið eitt helsta aðdráttarafl Ulster-safnsins í Belfast. Hægt er að kynna sér enn betur niðurstöður rannsóknanna á líki Takabuti á safninu sjálfu, þar sem múmían verður áfram til sýnis í fornegypska sýningarsalnum. Aðgangur að safninu er ókeypis.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV