Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Stúlkurnar í Prag yfirheyrðar á morgun

25.06.2013 - 20:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Stúlkurnar tvær sem dvelja í fangelsi í Prag verða að öllum líkindum yfirheyrðar á morgun. Þær hafa setið í gæsluvarðhaldi frá því í nóvember á síðasta ári vegna gruns um fíkniefnasmygl.

Þórir Gunnarsson ræðismaður Íslands í Tékklandi heimsótti stúlkurnar tvær í síðustu viku. Hann segir gang málsins hafa tekið stórt stökk aftur á bak þegar nýr saksóknari var skipaður í málinu. „Nú er annar saksóknari tekinn við þeim gamla. Það hefur hægt á gangi málsins því hann þarf að setja sig inn í öll atriði málsins og því dregst þetta á langinn,“ segir Þórir. 

Yfirheyrslur yfir stúlkunum áttu að fara fram fyrir nokkrum vikum en var frestað fram á morgundaginn. „Þær verða sennilega yfirheyrðar á morgun eða hinn. Lögfræðingur stúlknanna og túlkur verða viðstaddir yfirheyrslurnar,“ segir Þórir. 

Hann segir lítið hafa breyst varðandi líðan og aðbúnað stúlknanna. „Aðbúnaðurinn er ágætur og þær voru nokkuð brattar þegar ég heimsótti þær í síðustu viku. Þær taka hvern dag fyrir sig held ég bara,“ segir Þórir. Stúlkurnar eru báðar 18 ára.

Að loknum yfirheyrslum verður ákæra að öllum líkindum gefin út en að sögn Þóris er ekki hægt að segja til um hvenær það verður. Til hefur staðið að gefa út ákæru í málinu frá því í janúar en sem fyrr segir hefur það dregist ótæpilega á langinn. Stúlknanna gæti beðið 5-8 ára fangelsi verði þær fundnar sekar.