Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stúlkan á Vonartorgi

Mynd: NFS / NFS

Stúlkan á Vonartorgi

23.08.2018 - 15:15

Höfundar

Kvikmynd Pernille Fischer Kristenssen um Astrid Lindgren fjallar ekki um áhyggjuleysi æskunnar eða rithöfundafrægðina – heldur árin þar á milli, baráttu og uppreisn. Ásgeir H. Ingólfsson ræddi við leikstjóra myndarinnar.

Ásgeir H. Ingólfsson skrifar:

Danska leikstýran Pernille Fischer Kristenssen var að lesa dagblað þegar hún sá mynd af Astrid Lindgren, þar sem hún heldur á syni sínum Lasse á Vonartorgi í Kaupmannahöfn. En hvað var þessi unga sænska stúlka að gera þar? spurði leikstýran sig.

Þessi spurning varð svo kveikjan að myndinni Unga Astrid, sem fjallar um Astrid sem unga konu, frá því hún er um sextán ára eitthvað fram yfir tvítugt. Þessi mynd fjallar sumsé ekki um áhyggjuleysi æskunnar eða rithöfundafrægðina sem kom í kjölfarið – heldur árin þar á milli. Strögglið og uppreisnina.

Myndin fjallar um Astrid sem er í uppreisn gegn þrúgandi lúterskri kirkjunni í sænska smábænum og sönglar gamanvísur um Sódómu og Gómorru, Astrid sem bíður ekki eftir að strákarnir bjóði henni upp í dans heldur dansar ein eins og í leiðslu á gólfinu, Astrid sem á sína fyrstu kynlífsreynslu með giftum ritstjóra á dagblaðinu sem hún vinnur – og Astrid sem eignast lausaleiksbarn, rétt orðin nítján ára gömul. Sem er aldrei auðvelt, en sérstaklega ekki í kristnum smábæ í Svíþjóð fyrir tæpri öld síðan.

Það var þess vegna sem hún var á Vonartorgi. Það var nefnilega löglegt í Danmörku að fæða börn án þess að gefa upp nafn föðursins, ólíkt því sem var í Svíþjóð. Og það var nauðsynlegt, því annars hefði faðirinn getað endað í sænsku fangelsi fyrir hjúskaparbrot eða í það minnsta fengið háa sekt. Þessar dönsku reglur komu til af biturri reynslu Dana, en það hafði verið mikið um ólöglegar fóstureyðingar í Kaupmannahöfn og konur og börn dóu í kringum fæðingar.

Pernille rifjar raunar upp að það sé ekki svo langt síðan fóstureyðingar voru gerðar löglegar í Danmörku. Móðir hennar heitin fór í ólöglega fóstureyðingu, á eldhúsborði, sem var sannarlega erfið lífsreynsla, og þetta var stuttu áður en hún átti Pernille, sem er fædd árið 1969.

En aftur að Astrid. Óléttan olli mikilli ólgu í strangtrúaðri fjölskyldunni og sérstaklega var lengi stirt á milli hennar og móður hennar. Pernille leggur þó áherslu á að þetta hafi almennt verið mjög samheldin fjölskylda og á endanum gréri um heilt. Það var mikið frelsi og mikil ást í þessari fjölskyldu. Astrid skrifaði bók um foreldra sína, ástarsögu um föðurinn sem beið í fimm ár eftir móðurinni – og hinstu orð hans til Astridar voru: „Ó, þú áttir svo yndislega móður.“

„Það sem þú lest þegar þú ert barn er undirstaða hugsunar þinnar“
 

En hvaðan spratt áhugi Pernille á Astrid?

Pernille eyddi flestum sumrum æskunnar í Smálöndunum í Svíþjóð, en þaðan er Astrid. Þar voru engir símar, ekkert sjónvarp og ekkert heitt vatn. Þarna voru engir leikfélagar aðrir en bækurnar – og móðirin vann með börnum og var mjög áhugasöm um barnamenningu. Þannig spruttu mörg fyrstu samtölin um stóru spurningarnar í lífinu út frá bókum Lindgren, um dauðann og ástina, systralag, fjölskyldu, hugrekki og ábyrgð. Mögulega hefði hún aldrei orðið leikstjóri ef ekki væri fyrir Línu langsokk. Og svo bætir hún við: „Það sem þú lest þegar þú ert barn er undirstaða hugsunar þinnar. Lindgren sjálf skrifaði og talaði mikið um æskuna – en minna þó um unglingsárin.“

Pernille finnst það skiljanlegt. Þetta var sár reynsla og eins getur verið erfitt að útskýra æskuástirnar eftirá. En þessi sársauki mótaði hana sem höfund. Þetta gerði hana mögulega af þeim rithöfundi sem hún varð – en hún hefði samt líklega alltaf orðið rithöfundur. Hún var fædd með vissa hæfileika, innra loftnet sem skynjaði allt. Hún mundi hljóðin í sænsku sumarnóttinni og hvernig var að halda á nýfæddum kjúklingi í höndunum. Hún mundi með öllum líkamanum. Og hún var alla tíð uppreisnagjörn.

Alba og Trine

En hvernig gekk að finna hina ungu Astrid?

„Astrid var sérstök í bæði háttum og útliti, var eldskörp og næm á aðra,“ segir Pernille. Þau leituðu víða og komust fljótlega að því að ekki myndi duga að ráða áhugaleikkonu, sem flækir málin þegar aðalpersónan er 16-20 ára. En þá fóru þau í leiklistarskóla og fundu Ölbu August.

Alba virkaði eins og örugg og hugsandi leikkona frá fyrstu prufum, þrátt fyrir að vera rétt orðin tvítug. Alba er auk þess af mikilli leiklistarfjölskyldu, dótir leikstjórans Bille August og leikkonunnar Pernille August.

Þekktasta leikkonan í myndinni er þó danska stórleikkonan Trine Dyrholm. En þær Pernille og Trine hafa unnið lengi saman og eru gamlar vinkonur.

Trine lék í myndinni sem var lokaverkefni hennar í kvikmyndaskólanum, þær eru á svipuðu reki, Trine var þá sjálf í leiklistarskóla. Og Trine kenndi Pernille að leikstýra leikurum.

Pernille vissi nefnilega ekkert hvernig átti að leikstýra leikurum og var mjög óörugg gagnvart því. En svo leikstýrði hún Trine – og af henni lærði hún hvernig ætti að tala við leikara og koma fram við þá.

Persónan sem Trine leikur í myndinni gegnir ekkert ósvipuðu hlutverki gagnvart Astrid. Hún leikur fósturmóður allra barnanna sem eiga í engin hús að vernda, hún er fósturmóðir sonar Astridar um tíma, á meðan Astrid sjálf gat ekki séð um barnið – og mögulega kennir hún henni meira en flestir um fordómalausa ást og virðingu á börnum, hvaðan sem þau koma. Hún stendur fyrir allar fóstrur veraldarinnar – þær sem tala til barna sem enginn annar talar til. Svolítið eins og Astrid Lindgren gerði svo sjálf á sinn hátt, löngu seinna.