Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Stuðningur við ríkisstjórnina eykst

01.07.2015 - 18:50
Mynd með færslu
 Mynd: Malín Brand
Stuðningur við ríkisstjórnina eykst um fimm prósentustig á milli mánaða samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. Píratar eru stærsti flokkurinn samkvæmt könnuninni. Ríkisstjórnarflokkarnir bæta lítillega við sig.

 Könnunin var netkönnun, gerð dagana 28. maí til 29. júní. Framsóknarflokkur mælist með 11,3% fylgi en mældist með 9% fyrir mánuði og er enn langt frá kjörfylgi sínu sem var 24%. Sjálfstæðisflokkur bætir einnig við sig tveimur prósentustigum á milli kannana og mælist nú með 24,5% en fékk 27% í kosningunum. Píratar eru enn stærsti flokkurinn; mælast nú með tæp 32% en mældist með 34% fyrir mánuði. Samfylkingin tapar lítillega fylgi, er með 11,4%, Vinstri græn eru með 10,3% fylgi sem er nánast óbreytt milli kannana og Björt framtíð nýtur stuðnings 6,4%. Stuðningur við ríkisstjórnina mældist 36% en fyrir mánuði mældist fylgið 31%. Heildarúrtakið var 8.460 manns og þátttökuhlutfallið 57%. Rúmlega 11% tóku ekki afstöðu og rúmlega 10% sögðust skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV