Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stúdentar gagnrýna frumvarp um stuðningssjóð

23.07.2019 - 15:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stúdentaráð Háskóla Íslands segir ljóst að Lánasjóður íslenskra námsmanna hafi ekki getað þjónað hlutverki sínu sem félagslegur jöfnunarsjóður með góðu móti. Niðurfelling hluta höfuðstóls sé mikilvæg kjarabót en raunverulegar breytingar þurfi til þess að hún geti orðið að veruleika fyrir sem flesta stúdenta.

Drög að frumvarpi um nýjan stuðningssjóð íslenskra námsmanna boða miklar breytingar á námslánum og námslánakerfinu. Meðal annars stendur til að breyta  LÍN í SÍN og innleiða niðurfellingu hluta námslána. 

Ráðið gagnrýni helst fyrirhugaðar vaxtahækkanir og vaxtabreytingar

Stúdentaráð Háskóla Íslands setti fram fjölda athugasemda við frumvarpsdrögin í ályktun og umsögn ráðsins, svo sem vegna fyrirhugaðra breytinga á tekjutengingu og undanþágum um námsframvindu og niðurfellingu lána. Þá vill ráðið að fulltrúa frá Stúdentaráði sé tryggð aðkoma að sviðsstjórn sjóðsins, frumvarpið stefni því í hættu. Umsögnin fékk einróma samþykki á fundi Stúdentaráðs Háskólans í gær.

Forseti Stúdentaráðs, Jóna Þórey Pétursdóttir, segir gagnrýni ráðsins helst snúa að hækkun vaxta, afnámi vaxtahámarks og breytilegum vöxtum sem frumvarpið boði. Það fyrirkomulag boði mikla óvissu og aukna áhættu fyrir lánþega. 

Vilja endurskoðun á framfærslu- og grunnframfærslulánum

Þá segir í ályktuninni að fullt tilefni sé til endurskoðunar framfærslu- og grunnframfærslulána, en það virðist ekki standa til samkvæmt frumvarpinu. Mikilvægasta kjarabót frumvarpsins sé að námsmenn fái niðurfelld þrjátíu prósent af höfuðstól námslána, klári hann nám á tilgreindum tíma. 

Fjárhagserfiðleikar séu þriðja algengasta ástæða þess að nemendur rjúfi námsferil sinn í að minnsta kosti tvær annir. Markmið frumvarpsins um hvatningu til þess að klára nám á réttum tíma verði ekki að veruleika nema það sé tryggt að námsmenn geti framfleytt sér á meðan á námi standi, segir í ályktun ráðsins. 

Í ályktun ráðsins segir að óvissan sem námsmenn búi við leysist ekki ef ný lög kalli á frekari kröfugerð og hagsmunabaráttu af hálfu hagsmunasamtaka þeirra. Þó bendir ráðið á að ýmsar jákvæðar breytingar séu boðaðar í frumvarpinu sem þau fagni.