Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ströng skilyrði fyrir staðgöngumæðrun

25.09.2015 - 18:47
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV
Heilbrigðisráðherra ætlar að leggja fram frumvarp um staðgöngumæðrun fljótlega. Hann segir þau skilyrði sem sett eru í frumvarpinu mjög þröng, en það sé með vilja gert.

Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir leikkona sagði frá því í Kastljósi í gærkvöldi að hún hafi gengið með barn fyrir frænda sinn og mann hans. Hún hafi gert ráð fyrir að verða þátttakandi í lífi barnsins, en búið sé að loka á það. Viðtalið vakti mikla athygli og mikil umræða hefur orðið um staðgöngumæðrun. Guðlaug hvetur konur til að hugsa sig tvisvar um áður en þær ákveði að taka að sér staðgöngumæðrun.

„Þær konur sem eru tilbúna til að verða staðgöngumæður í velgjörðarskyni, þær hafa aldrei misst barn. Þær hafa örugglega átt börn og upplifað alsæluna við það. En þær hafa aldrei misst barn og það er það sem þær eru að bjóðast til að gera,“ segir Guðlaug.

Frumvarp um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni var lagt fram á Alþingi í fyrra. Verið er að endurmeta kostnaðarþáttinn og segir heilbrigðisráðherra að frumvarpið verði lagt fram á ný fljótlega. Hann á von á því að það verði afgreitt á yfirstandandi þingi.

„Já ég hefði álitið í ljósi umræðunnar að þingið kæmist að þeirri niðurstöðu að það væri nauðsynlegt að setja um þetta einhverja löggjöf“, segir Kristján Þór Júlísson, heilbrigðisráðherra. Hann segir málið kalla á mikla umræðu sem þegar sé hafin. Í frumvarpinu séu sett mjög ströng skilyrði fyrir staðgöngumæðrun, en þó ekki þannig að ekki sé hægt að nýta sér verðandi lög.

„Nei ég vil nú ekki viðurkenna að það sé ómögulegt að nýta, en ég viðurkenni fúslega að skilyrðin eru sett mjög þröng. Það er gert með vilja af starfshópnum sem vann þetta af mikilli samviskusemi  og gaf sér góðan tíma og fékk mikið svigrúm til að vinna þetta.“

Kristján segir að ákveðið hafi verið byrja varfærið og þegar reynsla sé komin á lögin verði skilyrðin mögulega rýmkuð.