Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Strengur milli himins og jarðar

Mynd: RÚV / RÚV

Strengur milli himins og jarðar

19.04.2018 - 14:00

Höfundar

„Ég nota þennan takt í hafinu því mér finnst ég aldrei jafn tengd eins og þegar ég stend í miklum öldugangi,“ segir Anna Fríða Jónsdóttir myndlistarmaður sem nýverið opnaði sýninguna Tónn í Listasafni Reykjavíkur.

Sýningin samanstendur af grjóti úr Hornafirði, risavöxnum píanóstrengjum og vídjóverki af kröftugum öldugangi. „Tónn fjallar um að ná tengingu við sjálfan sig og náttúruna og hvernig við förum að því. Mér finnst ég sjálf aldrei tengdari en þegar ég er úti við hafið. Þess vegna reyndi ég að velja element sem hjálpa mér sjálfri að tengja og finna minn tón, við erum alltaf að berjast við að reyna að heyra í okkur sjálfum og finna okkar tón á móti þeim ógnarkrafti sem náttúran er og þeim stöðuga takti sem við búum í sem nattúran færir okkur,“ segir Anna Fríða.

Mynd með færslu
 Mynd: Menningin - RÚV

Hún lærði myndlist á Íslandi og í Vín og hefur sýnt verk og gjörninga í Bandaríkjunum og Evrópu, þar á meðal á Feneyjartvíæringnum. Á þessari sýningu stýrir hún tónverki úr náttúruhljóðum og minnir með steinahafi á að einstaklingurinn er hluti af ógnarstórri heild. 

Finna steina undir fótum

Strengir liggja frá lofti niður á gólf og sýningargestir leika á þá og framkalla tóna sem minna á náttúruhljóð. „Þetta eru nokkrir mismunandi tónar. Þetta eru píanóstrengir sem ég fékk sérgerða fyrir mig svona langa. Einhvern daginn upplifði ég að mig langaði að tengja saman himinn og jörð og í gegnum mig rann einhvern veginn strengur sem ég gat spilað á í maganum. Hérna er ég í rauninni að reyna að tengja saman himinn og jörð.“

Mynd með færslu
 Mynd: Menningin - RÚV

Að sögn Önnu Fríðu er ætlunin að taka staka þætti úr náttúrunni til að gera gestum kleyft að njóta þeirra einna og sér, án samhengis við heild vanalegs umhverfis. „Þetta er náttúrulega kannski ákveðin niðursuða, að reyna að velja ákveðin element og fókusera á þau sem við náum kannski ekki að gera jafn vel í náttúrunni af því að þar erum við stöðugt með vindinn og öll hin elementin líka. Hérna er maður kannski að njóta þess bara að finna steinana undir löppunum eða bara hlusta á taktinn.“

Áhrifin sem Anna Fríða leitast við að framkalla hjá sýningargestum eru gagnleg. „Augnablikssálarfrið og að gefa sjálfum sér svolítinn tíma til að tengja við sjálfan sig og njóta.“