Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Strawberries opnar á ný

25.11.2013 - 19:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Kampavínsklúbburinn Strawberries í Reykjavík hefur verið opnaður aftur þrátt fyrir að umfangsmikil rannsókn á meintu vændi og milligöngu um það standi enn yfir.

Seint í október fóru lögreglumenn hingað inn og þóttust vera viðskiptavinir. Síðar um nóttina réðust fleiri lögreglumenn inn og handtóku starfsfólkið og nokkra viðskiptavini. 6 voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald og sat eigandinn lengst inni eða tvær vikur.  Á laugardaginn var staðurinn opnaður aftur, eins og ekkert hafi í skorist. 

Eigandinn og nokkrir starfsmenn eru grunaðir um að hafa haft milligöngu um vændi og stúlkur á staðnum eru grunaðar um að hafa selt sig.

Lögmaður Strawberries hefur sagt að stúlkurnar séu ekki starfsmenn heldur séu þær þarna inni á eigin vegum. Tekjur þeirra komi ekki frá Strawberries heldur fái þær þjórfé frá viðskiptavinum fyrir félagsskap.   

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur lögreglan kyrrsett eignir að andvirði tuga milljóna króna. En rannsóknin hefur ekki breytt því að staðurinn er enn með gilt rekstrarleyfi. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur lögregla þó farið fram á að staðnum verði lokað vegna brota á 4. grein laga um veitingastaði, það er að gert hafi verið út á nekt á staðnum.  Lögreglan bíður hinsvegar andmæla frá eigenda Strawberries.