Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Strandabyggð í Brothættum byggðum

27.01.2020 - 07:22
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV/Landinn
Strandabyggð hóf nýverið þátttöku í verkefninu Brothættum byggðum hjá Byggðastofnun. Umsókn sveitarfélagsins um þátttöku hefur legið fyrir frá 2014.

Í Strandabyggð búa um 450 manns, þar af tæplega 390 á Hólmavík. Þorgeir Pálsson sveitarstjóri segir það staðreynd að þar hafi þurft að horfast í augu við fólksfækkun líkt og á fleiri stöðum.

„Við lítum þess egna á þetta sem tækifæri til þess að spyrna aðeins við. Fá hugmyndir sem gætu laðað að fleira fólk. Fá upp hugmyndir að því sem við gætum gert nú þegar. Gert meira úr því sem er hér, skapað meiri verðmæti og svo framvegis. En kannski aðalega að fá fólkið sem er hérna til þess að svona hittast og spjalla og reyna að átta sig á því hvaða möguleika höfum við sjálf sem erum hér núna. Við lítum ekki á þetta verkefni sem einhvern svona allsherjar bjargvætt í þeim skilningi að snúa við þróun í íbúafjölda en svona fyrst og fremst mun þetta hjálpa okkur að sjá tækifærin í kringum okkur,“ segir hann.

Verkefnastjórn verður brátt skipuð með fulltrúum frá Byggðastofnun, íbúum og sveitarfélagi.

„Þá verður gengið frá samningi og farið að undirbúa íbúaþing og í rauninni svona þær áherslur sem við munum leggja upp með strax í byrjun á verkefninu. Þannig að við, við erum núna svona að koma af stað. Höfum verið að kynna þetta fyrir íbúum og næsta mál er að stofna þessa verkefnastjórn,“ segir Þorgeir.

Sjö byggðarlög eru nú í Brothættum byggðum auk Strandabyggðar. 227 milljónir hafa runnið til rúmlega þrjú hundruð verkefna síðan Brothættar byggðir hófust í tilraunaskyni á Raufarhöfn 2012.