Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Strætó skipt í tvö svæði til að verja vagnstjóra smiti

21.03.2020 - 01:45
Mynd með færslu
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV
Rými strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu verður skipt í tvo hluta frá og með næsta mánudegi. Verður það gert með borða sem strengdur verður fyrir fremsta hluta vagnsins til að aðskilja vagnstjóra og farþega.

Er farþegum gert að nota einungis aftari dyr vagnsins til að ganga um borð, eins og verið hefur að undanförnu. Farþegar með strætókort eða app skulu ganga að borðanum og halda korti eða síma á lofti svo bílstjórinn sjái, en sérstökum bráðabirgðabauk verður komið fyrir á farþegasvæðinu fyrir þau sem kjósa að greiða fargjaldið með reiðufé eða strætómiðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Strætó, og þar eru þeir farþegar sem ekki hafa orðið sér úti um kort eða app hvattir til að gera það hið fyrsta, til að fækka snertiflötum í vagninum. Þessi háttur verður hafður á svo lengi sem samkomubann er í gildi. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV