Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Strætó eykur þjónustu sína verulega

22.08.2012 - 14:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Strætó víkkar þjónustu sína verulega út í haust. Strætó byrjar að ganga frá Mjódd í Reykjavík til Akureyrar í byrjun september og víðar um land. Tekin verður upp pöntunarþjónusta, Strætó kemur og sækir, jafnvel þó það sé bara einn farþegi.

Strætó verður með fjölmargar nýjungar í þjónustu sinni í haust. Boðið verður upp á ferðir frá Reykjavík til Borgarness, Búðardals og Hólmavíkur. Daglega verður ekið frá Reykjavík í Stykkishólm og jafnvel stendur til að bjóða upp á ferðir til Hellissands.

Pöntunarþjónusta í gagnið

Í haust verður pöntunarþjónusta tekin í gagnið þannig að þeir sem vilja fara til dæmis í Reykholt, á Kleppjárnsreyki, Hvammstanga eða Skagaströnd geta pantað sér far. Bíll á vegum Strætó sækir farþegana og fer með þá á áfangastað eða ekur þeim að næsta vagni á hringveginum eftir því hvert ferðinni er heitið.

Einnig verður boðið upp á strætóferðir til Suðurnesja. 

Farið kostar mismikið

Í haust verður útboð á strætisvagnaakstri frá Akureyri til Húsavíkur, í Mývatnssveit, til Siglufjarðar og Þórshafnar. Strætó hefur í sumar ekið til Hafnar í Hornafirði. 

Farið með strætó kostar mismikið eftir því hversu langt er farið. Til dæmis kostar 7.700 krónur til Akureyrar og ríflega 10 þúsund krónur til Hafnar í Hornafirði enda er það lengri leið.

Útboð í haust

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir að sérleyfin séu að leggjast af. Strætó taki að sér akstur fyrir landshlutasamtök. Aksturinn sé boðinn út og lægstbjóðandi fái verkið. Hópbílar hafi oftast boðið lægst. Strætó sjái um skipulagninguna, upplýsingagjöf og sölu farmiða. 

Sterna hefur verið með sérleyfið á leiðinni Akureyri - Reykjavík og hefur miðinn kostað 11.800 krónur. Leyfi þeirra rennur út um mánaðamótin en Sterna heldur áfram að þjónusta hringmiðafarþega sína til 15. september.