Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stóru rjúpnatopparnir koma ekki aftur

30.10.2019 - 17:00
Mynd: RÚV / RÚV
Arne Sólmundsson segir að óháð veiðum séu ekki forsendur í náttúrunni til að byggja upp stóra rjúpnastofna eins og þekktust hér áður fyrr. Hann segir að fjöldi veiðidaga skipti ekki máli heldur hvenær árs sé veitt. Hann hefur rýnt í gögn um rjúpuna sem staðfesti að viðkoma hennar hafi minnkað um fimmtung frá árinu 2004.

Rjúpnaveiðitímabilið hefst á föstudaginn og stendur að þessu sinni í 22 daga. Bannað verður að veiða miðvikudaga og fimmtudaga. Veiðidögum hefur fjölgað um sjö frá því í fyrra en eftir veiðibannið á sínum tíma var veiðin nær einungis bundin við helgar. Rjúpan er líklega sá fugl á Íslandi sem mest hefur verið rannsakaður en samt sem áður hafa ekki fengist tæmandi upplýsingar um stofninn. Það er ekki síst fyrir tilstuðlan Ólafs K. Nielsen, fuglafræðings hjá Náttúrufræðistofnun, sem mikil tölfræði liggur fyrir allt frá árinu 1981.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lagt til veiða

Hefur rýnt í tölurnar

Arne Sólmundsson, sem situr í fagráði Skotvís um vöktun, rannsóknir og veiðistjórnun, hefur legið yfir rjúpna tölfræðinni. Hann hefur meðal annars reynt að varpa ljósi á viðkomu rjúpunnar og afföll unga. Hann segir að eftir að tveggja ára veiðibanni var aflétt 2004 hafi viðkoma rjúpunnar minnkað um 20 prósent. Meðalfjöldi unga sem komast á legg var 8,4 en á síðasta ári var meðalfjöldinn kominn niður í 6,7. Hann segir að menn hafi tilhneigingu til að miða við toppana frá 1955 og 1986 og hafi væntingar um að þessir toppar komi aftur.

„Spurningin er hins vegar, óháð veiðum, hvort að það séu forsendur í náttúrunni til þess að byggja upp slíka stofna. Svarið við því er einfaldlega nei, eftir að hafa skoðað þessi gögn,“ segir Arne.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Arne Sólmundsson

Skilyrði fyrir toppum ekki lengur fyrir hendi

1955 var fninn talinn vera tvær milljónir fugla og '86, ein og hálf milljón. Í fyrra er talið að hann hafi verið ein milljón. Arne segir að til að byggja upp stofna eins og voru hér áður fyrr þurfi ýmsa samverkandi þætti. Góð viðkoma þurfi að vera samfelld í tiltekin ár til að ná hámarki áður en það snýst í niðursveiflu.

„ Þessi skilyrði eru einfaldlega ekki fyrir hendi í dag. Það er það sem Skotvís hefur verið að benda á og það er í raun það sem hefur komið út úr skoðun á gögnum.“

Þurfum að vinna saman

Hann segir að nú sé mikilvægt að þróa það sem hann kallar ákvörðunarkerfi. Mikilvægt sé að stofnanir vinni saman, Náttúrufræðistofnun, Umhverfisstofnun, Skotvís og fleiri til að glöggva sig á ástandinu og meta hvað má veiða mikið. Umræðan hafi beinst óþarflega mikið að fjölda veiðidaga.

„Meginniðurstaðan er sú að það sem hefur minnst áhrif er umræðan um dagafjöldann: það sem hefur meiri áhrif er á hvaða tímum árs er veitt,“ segir Arne.

Áður hafi veiðin hafist 15. nóvember. Fram að mánaðamótum sé rjúpan tiltölulega auðveld bráð vegna þess að hún hnappar sig saman. Veiðimenn hafi þá stundað útgerðarveiðar og sumir hverjir veitt mikið. Þá nam veiðin 25 prósentum af stofninum.

“Það var í lagi á þeim tíma á meðan viðkoman var í langi en við núverandi aðstæður er ekki í lagi að veiða 25%. Aðgerðir sem voru innleiddar 2004 höfðu ekkert með dagafjöldann að ræða. Við seinkuðum tímabilinu, brutum upp skilyrði til útgerðar á veiðum og settum á sölubann. Þessir þrír þættir stuðluðu að því að veiðarnar náðust niður í 10%“ segir Arne

Hann segir að nú séu 10 %  veiðar í lagi á hauststofninum. Þær hins vegar skerði varpstofn næsta árs um 10%.

Viðkoma rjúpunnar skipti máli. Árni segir mikilvægt að varpa ljósi á hvers vegna hún hefur minnkað síðastliðin ár.

„Ef þetta fer enn neðar. Úr 6,7 niður í segjum 5,5. þá erum við algjörlega búin að fletja út alla sveiflur. Það verða sveiflur áfram en þær verða ekki eins öfgakenndar og við eigum að venjast með rjúpnastofninn,“ segir Arne

Refurinn sökudólgur?

Lengi hefur verið einblínt á að vetrarafföll í rjúpnastofninum séu afgerandi þáttur. Hins vegar benda tölur sem Arne hefur farið yfir til að sumarafföll skipti talsverðu máli. Nauðsynlegt sé að vinna meira og varpa ljósi á þetta. Ýmsar kenningar séu á lofti.

„Vinsælasta tilgátan er kannski að stækkandi refastofn geti haft áhrif á það hve margir ungar komast lífs af eftir sumarið. Það er vinsæl kenning en alls ekki sönnuð,“ segir Arne. Hann segir að fátt bendi til þess að fjölgun refa hafi áhrif á vetrarafföllin.

Fjöldi veiðdaga skiptir ekki máli

Afföll fyrsta árs fugla skipta máli. Þau geta verið um 80% þegar stofninn er í lægð. Útreikningar Arne benda til þess að eitt prósentustig af þessum afföllum megi skrifa á veiðarnar. Viðkoman skipti meginmáli. Hann bendir á að þegar þeim ungum sem komast á legg fækki úr 8,3 í 6,7 jafngildi það 12% veiðum, eða meira en verið sé að veiða í dag. Skotvís hefur bent á að fjöldi veiðidaga skipti ekki máli. Meðal veiðimaður fari til veiða í fjóra daga.

„Dagarnir eru minnsta breytan í þessu. Það er aðallega það að við veljum af gaumgæfni hvenær við förum á veiðar. Aðalatriði er að halda veiðunum í um 10% og hvaða leiðir við förum til að tryggja að svo verði. Leiðin sem farin er að við byrjum seinna að veiða, við brjótum vikurnar upp og það er sölubann. Að þessum skilyrðum uppfylltum ættum við að tryggja að við verðum innan við 10%. Ef það gerist ekki og við förum upp í 15% þá verðum við að endurskoða fyrirkomulagið,“ segir Arne.