Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stórtíðindi ef þriðji orkupakkinn yrði felldur

14.11.2018 - 19:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það yrðu stórtíðindi í íslenskri pólitík ef þriðji orkupakkinn yrði felldur vegna þess að það gæti sett EES-samninginn í uppnám. Þetta segir Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði. Slíkt hafi aldrei gerst áður á Íslandi. Hann segir stöðuna á vinnumarkaði og orkupakkann erfiðustu málin fram undan fyrir ríkisstjórnina. 

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð í nóvember í fyrra eftir alþingiskosningar í lok október. Hún tók við völdum 30. nóvember og því nálgast ársafmælið. Staða ríkisstjórnarinnar hefur þótt nokkuð góð þótt hún hafi tapað fylgi í könnunum og njóti ekki stuðnings meirihluta þjóðarinnar samkvæmt þeim. Það hefur hins vegar verið reyndin hjá öllum ríkisstjórnum frá hruni. En hvaða mál eiga eftir að reynast ríkisstjórninni erfið á næstunni

„Staðan á vinnumarkaðnum þar sem blikur eru á lofti og fróðlegt að sjá hvernig úr spilast en síðan vekur líka athygli að þriðji orkupakkinn virðist njóta eða hafa eða vera andstaða við hann innan allra stjórnarflokkanna og við vitum auðvitað ekki hver verður niðurstaðan í þinginu,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði. 

Hins vegar segir hann að þriðji orkupakkinn sé studdur af mörgum í stjórnarandstöðunni og þess vegna verði þróun þess máls afar athyglisverð. 

„Kannski gætum við fengið þarna niðurstöðu þar sem afstaða manna til málsins færi ekki algjörlega eftir flokkslínum og það væru nokkur tíðindi í íslenskri pólitík. Ef að þriðji orkupakkinn yrði felldur þá væru það auðvitað stórtíðindi vegna þess að það gæti sett EES-samninginn í uppnám og mál af þessu tagi hefur aldrei verið fellt á Íslandi áður,“ segir Ólafur. 

Ólafur segir að þetta mál valdi ríkisstjórninni óþægindum en enn sé ekki hægt að segja hversu erfitt það muni reynast. Ólafur segir stjórnarandstöðuflokkana fimm vera málefnalegri en oft áður og segir fullkomlega eðlilegt að þeir flokkar séu ekki samstíga í öllum málum.

„Í rauninni getur maður greint í stjórnarandstöðunni tvær blokkir, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins eru samskipa í mörgum málum en aftur á móti Samfylkingin, Píratar og Viðreisn samskipa í mörgum málum líka,“ segir Ólafur. 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV