Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stormur undir Vatnajökli í kvöld og í nótt

17.02.2019 - 16:17
Mynd með færslu
Mynd úr safni.  Mynd: Davíð Már Bjarnason
Norðanhríð verður austanlands í kvöld og í nótt og stormur undir Vatnajökli, samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Minnkandi norðanátt verður á morgun með éljum en bjart sunnan heiða. Hiti breytist lítið.

Spáð er norðaustan hvassviðri norðvestan til og á annesjum nyrst í kvöld, annars víða 8 til 15 metrum á sekúndu. Snjókoma eða él verður fyrir norðan og bjart með köflum syðra. Það bætir í vind og ofankomu austanlands í kvöld og gengur í norðan storm undir Vatnajökli. Frost víða 0 til 5 stig, yfirleitt frostlaust við suðurströndina.

Í fyrramálið verða norðan 10 til 18 metrar á sekúndu, hvassast suðaustan til og éljagangur en léttskýjað sunnan heiða. Hægari vindur og úrkomuminna seinni partinn.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að spáð sé meiri snjó og hvössum norðanvindi eftir klukkan 21 í kvöld og fram á morgundaginn, einkum á Siglufjarðarvegi og á fjallvegum á Austfjörðum. Þá verði talsverð ofankoma, svo sem við Ólafsfjörð.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir