Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Stórhætta á vinsælum útsýnisstað

05.04.2015 - 19:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stórhætta hefur skapast á vinsælum útsýnisstað á Ketubjörgum við utanverðan Skagafjörð. Þar hafa djúpar sprungur myndast í bjargbrúnina og óttast er að stór stykki geti hrunið úr björgunum á næstunni.

Í Syðri-Bjargavík í Ketubjörgum er mikil náttúrufegurð og gott útsýni yfir björgin og út á Skagafjörð. Enda kemur fjöldi ferðamanna þarna fram á brúnina ár hvert.

En þarna hafa í gegnum tíðina orðið miklar breytingar á landinu. Sprungur hafa myndast í björgununum og síðustu ár hafa fallið úr þeim stórar spildur. Og þetta er alltaf að ágerast.

Ingólfur Sveinsson, bóndi á Lágmúla, segir að með nokkurra ára millibili fari fyllur af stað eins og komnar séu núna. 

Það er aðeins mánuður síðan sprunga sem nú er orðin áberandi byrjaði að myndast. Á því sést hvað bjargið er hér á mikilli ferð. 

Og á þessum stað er stór fylla sem talin er geta fallið fram á næstu vikum. Þarna er því orðið mjög varasamt að fara um.

Ingólfur segir að fólk sem komi þarna alókunnugt geri sér ekki grein fyrir hættunni. Hann hafi horft á fimm manna fjölskyldu propandi fram á brúnina.

Og eftir 40 ár sem björgunarsveitarmaður hafi hann ekki getað horft upp á þetta lengur. Ingólfur kallaði því til lögreglu sem kom og girti af hættulegasta svæðið og lokaði því fyrir umferð. Það verði hins vegar að setja streng og skilti til að vara fólk við. 

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV