Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stóraukin eftirspurn eftir vegan hátíðarmat

30.12.2018 - 19:28
Mun fleiri kjósa að fá sér hnetusteik eða annan vegan hátíðarmat í ár en í fyrra. Eftirspurn eftir slíkum réttum er um helmingi meiri í ár, segja kaupmenn bæði í Krónunni og Nettó. Sumar vörur kláruðust fyrir hátíðirnar, þar á meðal vegan laufabrauð. Kaupmenn sem fréttastofa ræddi við segja sömu sögu. Eftirspurn eftir vegan mat eða grænkerafæði, þar með talið hnetusteikum, buffi, kjötlíki og fleiru sem ekki inniheldur dýraafurðir, eykst stöðugt.

Sigurður Gunnar Markússon, framkvæmdastjóri innkaupa hjá Krónunni, tekur vel eftir þessari þróun. „Gríðarlega mikið. Bæði hefur eftirspurnin aukist mikið og framboð af vörum hefur líka margfaldast,“ segir hann. 

Um er að ræða nokkuð breiðan flokk vara en hann segir að hátíðarréttir á borð við hnetusteikur taki mest stökk. „Við höfum stöðugt verið að auka vöruvalið í þessu og þessi jólin er rúmlega fimmtíu prósent aukning í sölu á tilbúnum matarlausnum sem henta þessum hóp.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Sigurður Gunnar Markússon, framkvæmdastjóri innkaupa hjá Krónunni

Þurfa að hafa sig alla við til að anna eftirspurn

Sumar vörur hafi klárast og oft sé ekki hægt að anna eftirspurn eftir vegan mat. „Til dæmis eins og í vörumerkinu Gardein þar sem er bara svo vinsæl vara á heimsvísu að við fáum ekki allt sem við pöntum og þar af leiðiandi eigum við ekki til allt sem markaðurinn var að óska eftir,“ segir Sigurður.

Í Nettó var svipaða sögu að segja, eftirspurn stórjókst milli ára og þar var útséð með að hnetusteikurnar myndu klárast. Byrgjar þurftu að hafa sig alla við og verslunin setti sig sérstaklega í samband við framleiðendur sem allajafna framleiða ekki vegan mat til að koma fleiri hnetusteikum í hillurnar fyrir jól.

Janúar mikil grænkerahátíð

„Fólk fór í smá panikk út af einhverjum hátíðarsteikum man ég,“ segir Benjamín Sigurgeirsson, formaður Samtaka grænkera á Íslandi. Þá hafi skortur á hafradrykknum Oatly sagt til sín í vetur. „Ég held þau hafi náð að bjarga því rétt fyrir jól. Svo merkti ég allavega sjálfur að vegan laufabrauðin seldust upp,“ segir hann. „Annars er úrvalið orðið það mikið að það er alltaf hægt að finna eitthvað annað í staðinn.“

Benjamín tekur fram að janúar sé ekki síður hátíðarmánuður í hópi grænkera, þar sem veganúar er haldinn hátíðlegur. Þá séu landsmenn hvattir til að leggja sér vegan fæðu til munns.

Mynd með færslu
 Mynd:
Benjamín Sigurgeirsson, formaður Samtaka grænkera á Íslandi
Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV