Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Stórar sameiningar líklegri fyrr en síðar

07.12.2016 - 11:08
Mynd: Morten Hansen / Morten Hansen
„Mér finnst skotið yfir markið þarna, þetta eru heldur stór svæði,“ segir Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri, um hugmyndir Samtaka atvinnulífsins um sameiningu sveitarfélaga. Hjalti var í umdæmanefnd Eyþings sem skoðaði sameiningu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra árið 1993. Sú vinna var á vegum þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, og voru sameiningar skoðaðar í öllum landshlutum.

„Það voru tæplega 200 sveitarfélög allt í allt og svo komu út úr því tillögur um 43 sveitarfélög, eftir dálítið mikla undirbúningsvinnu. Það voru nefndarstörf og mikil greiningarvinna í tvö ár á undan, svo var kosið um þetta allt saman í nóvember 1993. Ég held að það hafi ein tillaga verið samþykkt,“ sagði Hjalti í viðtali í Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Ekki bara peningahliðin

Stýrihópurinn um verkefnið lagði upp með aðrar áherslur en Samtök atvinnulífsins gera nú. Ekki var bara horft á fjárhagslegar forsendur, heldur einnig samfélagslegar.

„Það væru atvinnusóknarfæri fyrir flesta íbúa, inn á nálægum þéttbýlisstað sem væri kjarni samfélagsins. Þau væru ekki stærri en svo, það var miðað við að lágmarkið væri um þúsund og ef það væru tveir nálægir þéttbýliskjarnar þá væru þeir í sama sveitarfélagi og íbúar í dreifbýli og í kringum þéttbýliskjarna væru að jafnaði í sama sveitarfélagi og þeir sem eru í þéttbýlinu. Það var verið að hugsa um að búa ekki bara til rekstarlega einingu heldur líka samfélagslega einingu, eitthvað svæði sem íbúarnir gætu samsamað sig með,“ sagði Hjalti. Það sé jákvætt út af fyrir sig að horfa á rekstarhagkvæmni með sameiningu sveitarfélaga, en það sé bara hluti af dæminu.

Tvöfalt fleiri sveitarfélög líklegri til árangurs

Aðspurður hvort frekar kæmi til greina að sveitarfélögin yrðu tvöfalt fleiri, 18 í stað 9, og yrðu þar með aðeins minni segir Hjalti að slíkt væri líklegra til árangurs.

„Þarna eins og '93 og aftur 2005 reyndar í öðru átaki, að þá var verið að ganga út frá því að Eyjafjörðurinn væri eitt sveitarfélag. Ég held að eitthvað svoleiðis gæti mögulega gengið. Við erum með Skagafjörðinn sem nánast eitt sveitarfélag, þar er Akrahreppurinn þar undanskilinn. Við erum með Hérað og Borgarfjörðinn meira og minna sameinaðan, þannig að slíkar einingar gætu gengið,“ segir Hjalti.

Hundruð samstarfsverkefna nú þegar í gangi

Hann segir líklegra að fyrr en síðar verði stórar sameiningar sveitarfélaga og bendir á að nú þegar séu hundruð samstarfsverkefna sveitarfélaga um ýmis konar þjónustu, eins og bent er á í skýrslu SA.

„Jújú, ég held að það sé framtíðin en það er spurning hversu langt við eigum að ganga. Við vorum að vinna verkefni núna hjá RHA, vorum að greina samstarf sveitarfélaga og þá innan þessara landshluta. Á öllu landinu þá töldum við 320-30 samstarfsverkefni og hvert sveitarfélag er í 23-24 samstarfsverkefnum, þetta er mjög flókið. Svo eru samstarfsformin, hvaða rammi er í kringum það, hvort það er byggðarsamlag eða hlutafélag eða hvað. Það er mjög mismunandi og mismunandi eftir svæðum. Þróunin virðist vera í þá átt að þetta séu samningar, að það sé sveigjanleiki í þessu og það er auðveldara að stofna til þess og slíta því heldur en ef það er meira niðurnjörvað, flóknara kerfi. Svo er það líka spurning um hvaða fjölda fulltrúa fólk er að fá, miðað við stærð sveitarfélagsins sem á í samstarfinu. Það getur verið til dæmis að vigt stórs sveitarfélags í slíku sé lítil miðað við hvað það er að borga inn í það,“ segir Hjalti. 

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV