Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stóra uppþvottaburstamálið í erlendum miðlum

10.06.2019 - 16:43
Mynd með færslu
 Mynd: Twitter
Margir erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um uppákomu sem átti sér stað í Leifsstöð í gær þegar tyrkneska karlalandsliðið í fótbolta kom hingað til lands. Þar otaði Belgi nokkur uppþvottabursta að leikmönnum liðsins og hefur atvikið fengið nafnið stóra uppþvottaburstamálið á samfélagsmiðlum.

Auk þess að vera ósáttir við uppþvottaburstann þótti landsliðsmönnunum vegabréfa- og tolleftirlit í Leifsstöð taka skammarlega langan tíma.

Breska ríkisútvarpið BBC fjallar um málið á vef sínum og segir tyrknesk yfirvöld bálreið vegna málsins. Vitnað er til orða utanríkisráðherrans Mevlut Cavusoglu sem sagði meðferðina á landsliðinu óásættanlega.

Á vef breska dagblaðsins Guardian er vitnað í Emre Belözoglu, fyrirliða Tyrkja, sem segir að leitað hafi verið í farangri liðsmanna oftar en einu sinni. Einnig er vitnað í orð varafyrirliðans Burak Yilmaz sem sagði við tyrkneska fjölmiðla sem biðu landsliðsins í Leifsstöð að meðferðin hefði verið dónaleg og til skammar.

Katarska fréttastofan Al Jazeera fjallar einnig um málið og hefur eftir háttsettum embættismanni í utanríkisráðuneyti Tyrklands að lögð hafði verið fram formleg kvörtun til íslenska utanríkisráðuneytisins líkt og greint var frá á vef RÚV fyrr í dag.

Margir Tyrkir hafa farið mikinn á samfélagsmiðlum og látið hörð orð falla, meðal annars við Twitter-færslu Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um málið.

Corentin Siamang, maðurinn sem otaði burstanum að Tyrkjunum, hefur fengið sinn skerf af svívirðingum eftir að upp komst að hann væri ábyrgur. Fjöldi tyrkneskra Facebook-notenda hefur skrifað athugasemdir við nýjustu mynd hans á síðunni og eru ómyrkir í máli í hans garð.

Facebook-síða hans virðist reyndar hafa orðið fyrir árás tyrknesks hakkara en þar má nú sjá myndir af tyrkneska landsliðinu.

Ísland og Tyrkland eigast við í undankeppni Evrópumótsins á morgun klukkan 18:45 á Laugardalsvelli.