Stór skjálfti í Bárðarbungu

03.08.2016 - 16:48
Skjálfti að stærðinni 4 varð í nyrðri enda Bárðarbungu nú á fimmta tímanum. Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að þetta sé vissulega stór skjálfti og með þeim stærstu sem hafi mælst frá goslokum. Hann segir að undanfarna viku hafi verið róleg virkni í Bárðarbungu en í dag hafi mælst þar nokkrir stórir skjálftar.

Í hádeginu varð skjálfti að stærðinni 3, en alls hafa sex skjálftar stærri en 2 mælst við Bárðarbungu í dag. Einar segir þetta framhald á virkni í Bárðarbungu frá gosinu í Holuhrauni en ekki séu merki um aukinn gosóróa. Sérfræðingar Veðurstofunnar fylgjast með skjálftavirkni á svæðinu allan sólarhringinn.

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi