Stór hluti óbólusettra barna útlendingar

05.09.2018 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd: EBU
Erfitt getur reynst að ná í foreldra barna sem ekki mæta í bólusetningar. Stór hluti þeirra er af erlendum uppruna. Skýringuna gæti verið að finna í rangri skráningu í Þjóðskrá. Börn geti verið brottflutt án þess að það sé skráð.

Í samráði við sóttvarnalækni hefur Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins nú gripið til aðgerða til að hækka hlutfall bólusettra barna. Tillaga Sjálfstæðisflokksins um að gera bólusetningar skilyrði fyrir inntöku barna í leikskóla var felld í borgarstjórn í gærkvöld. 

Þátttaka í bólusetningum barna á fyrsta ári og á grunnskólaaldri er um níutíu og sjö prósent, sem sóttvarnalæknir segir viðunandi. Hlutfallið lækkar niður í um níutíu prósent meðal barna í leikskóla. 

Sóttvarnalæknir hefur bent á að vandinn sé þríþættur. Í fyrsta lagi þurfi að bæta skráningarkerfið, því komið hafi í ljós að vantað hafi upp á skráningar í rafræna sjúkraskrá. Þá þurfi að bæta innköllunarkerfið og loks að kanna hvort þau sem mæti ekki og ekki náist í, séu raunverulega búsett á landinu. Sesselja Guðmundsdóttir, sviðsstjóri ung- og smábarnaverndar hjá Þróunarmiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að nýtt skráningarkerfi verði tekið í notkun í október. „Þá munum við geta tekið út lista yfir óbólusett börn á heilsugæslustöðvum og þá er hægt að hafa samband við foreldrana og minna á að koma með börnin í bólusetningar,“ segir hún.

Sesselja bendir á að þátttaka í bólusetningum í ung- og smábarnavernd sé mjög góð og flestir foreldrar mæti með börnin sín í skoðanir þótt það komi fyrir að það gleymist. 

Sesselja segir að sent sé út bréf til að minna foreldra á skoðanir og reynt að hringja til að hafa upp á óbólusettum börnum. Oft takist þó ekki að ná í foreldra, vegna þess að þess að heimilisföng eru ekki rétt skráð í Þjóðskrá. „Það er stór hópur þarna útlendingar sem eru ekki að mæta. Þetta gæti verið fólk sem er flutt aftur erlendis, við vitum það ekki,“ segir hún. 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi