Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stopover buddies ekki leiðsögumenn

03.02.2016 - 13:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV / Icelandair
Icelandair vísar á bug gagnrýni um að með því að bjóða upp á félagsskap fyrir þá ferðamenn sem millilenda á Íslandi, sé verið að seilast inn á starfssvið leiðsögumanna. Alls munu 20-30 starfsmenn Icelandair sinna svonefndu „Stopover buddy“-verkefni. Þeir munu njóta ráðgjafar systurfyrirtækis Icelandair, Iceland Travel, þar sem starfar menntað fagfólk. Þetta kemur fram í svari félagsins við fyrirspurn Fréttastofu RÚV.

Icelandair hóf í gær herferðina Stopover buddy. Þeim sem millilenda hér býðst að lengja dvölina og njóta félagsskapar starfsmanns Icelandair án þess að greiða þurfi fyrir það sérstaklega. Þegar hafa um tuttugu sótt um að fá millilendingarfélaga. Samkvæmt upplýsingum Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, verður dregið úr umsóknum og því fá ekki allir félaga.

Í svari við fyrirspurn Fréttastofu RÚV kemur enn fremur fram að Icelandair starfsmaðurinn sé eingöngu ferðafélagi í einn dag sem taki hinn erlenda gest með sér t.d. heim til sín, í hesthúsið til sín, í sund, út að hlaupa o.s.frv.

Alls hafi um 200 starfsmenn Icelandair óskað eftir því að verða millilendingafélagar. Niðurstaðan hafi verið sú að tólf starfsmenn verði ferðafélagar í aðalhlutverki og að hver um sig taki á móti 2-3 erlendum gestum. Þá séu nokkrir til vara þannig að í heildina komi 20-30 starfsmenn Icelandair að verkefninu. 

Fréttastofa spurði um kostnaðinn vegna herferðarinnar og hvort hann yrði til þess að hækka flugfargjöld. Í svari Icelandair segir að verkefnið sé lítill hluti af stórri markaðsherferð og mjög lítill hluti af heildarkostnaði við sölu- og markaðsstarf. Flugfargjöld hækki ekki vegna þessa. „Markmiðið með þessari herferð er að kynna Ísland, ekki síst á samfélagsmiðlum, og fá fólk sem væri annars í millilandaflugi til þess að stoppa á Íslandi og njóta þess sem landið hefur upp á að bjóða með áherslu á vetrartímann. Hér er um mjög takmarkaðann fjölda fólks að ræða um nokkurra vikna skeið,“ segir ennfremur í svari Icelandair.

Þess má geta að Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, er einn þeirra sem býður sig fram sem Stopover buddy.