Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stoltur af Alþingi að ræða umskurðarbann

14.02.2018 - 22:19
Mynd: RÚV / RÚV
Forseti Alþingis segir mikilvægt að þingmenn bogni ekki undan þrýstingi erlendis frá þegar rætt er um frumvarp um bann við umskurði drengja. Hann er stoltur af Alþingi að taka jafn eftirtektarvert mál til umræðu.

Frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur alþingismanns um bann við umskurði drengja, hefur vakið mikla athygli. Þá svo að málið sé ekki komið til þingnefndar, þar sem venja er að kalla eftir umsögnum, hafa samtök gyðinga á Norðurlöndunum sent íslenskum þingmönnum bréf þar sem þeir mótmæla frumvarpinu harðlega og segja það árás á gyðingdóminn þannig að það snerti gyðinga um allan heim. Forseti Alþingis segir að þessi hörðu viðbrögð séu skiljanleg vegna þess hve viðkvæmt málið er. 

„Og við eigum ekki að bogna undan því þó að mál af þessu tagi sem á fullt erind á dagskrá kveiki viðbrögð. En það á þá bara að halda málinu í framhaldinu yfirvegað og málefnalega og gefa því góðan tíma og skoða það. Við erum akkúrat með þannig mál í höndunum. Ég er frekar stoltur af því að Alþingi Íslendinga tekur frumkvæði í máli af þessu tagi sem vekur alþjóðlega athygli af því að ég tel að þetta mál eigi fullt erindi inn í umræðuna en það þarf auðvitað að skoða það og vinna það vel,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.

Fremur sjaldgæft sé þó að fá viðbrögð erlendis frá við frumvörpum. „En þó ekki alveg einstakt. Ég meina við samþykktum Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki og það komu heldur betur viðbrögð utanlands frá, aðallega frá einum aðila að vísu,“ segir Steingrímur.