Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Stolnu bengalkettirnir komnir heim

27.01.2015 - 01:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Þrír bengalkettir, sem stolið var af bænum Nátthaga í Ölfusi í síðustu viku, eru komnir heim. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði upp á kattaþjófunum og sótti kettina í hús nokkuð í Reykjavík í kvöld. Eigandi þeirra gat svo sótt þá til lögreglunnar.

Ólafur Sturla Njálsson, eigandi kattanna og bóndi á Nátthaga, segir að kettirnir, tvær læður og fress, séu ómeiddir, en nokkuð hvekktir, sérstaklega læðurnar. Þeir hafi horast nokkuð og líklega ekki borðað mikið síðustu daga. Að öðru leyti virðist ekki hafa verið farið illa með þá. Þeir hafi allir þekkt eiganda sinn aftur og brugðist vel við endurfundunum. 

Upphaflega var talið að þjófurinn eða þjófarnir, sem brutust inn í kattarými í skemmu við Nátthaga á miðvikudag, hefðu stolið þaðan fjórum köttum. Degi síðar komst þó í ljós að fressið Kiss me hafði komist undan, og falið sig undir sófa.