
„Stöðvum Soros“ fyrir ungverska þingið
Frumvarpið nefnist „stöðvum Soros" og er liður í herferð forsætisráðherrans Viktors Orban gegn bandaríska auðjöfrinum George Soros, sem fæddist í Ungverjalandi. Flokksmenn Fidesz-flokksins, sem er við stjórnvölinn í landinu, telja Soros hvetja flóttamenn til þess að fara til Ungverjalands.
Annað frumvarp frá stjórnvöldum liggur á borði ungverskra þingmanna. Þar er lögð fram tillaga um breytingu á stjórnarskrá landsins á þá leið að útlendingar geti ekki sótt um hæli komi þeir til Ungverjalands í gegnum þriðja land þar sem þeirra bíður ekki dómur.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fordæmir frumvörpin. Þau eru sögð til þess fallin að auka fordómafulla hegðun. Óttast stofnunin að veðri lögin samþykkt eigi nauðsynleg þjónusta við fólk sem hefur neyðst til að flýja heimili sín eftir að skerðast. Eins geti þau valdið sundrung og auknum fordómum. Al Jazeera fréttastofan hefur eftir Pascale Moreau, yfirmanni Evrópudeildar Flóttamannastofnunarinnar, að þar hafi menn verulegar áhyggjur af því að ungversk stjórnvöld séu með þessu að beina sjónum sínum að fólki sem sýnir þá mannúð að aðstoða fólk í leit að skjóli.
Fidesz-flokkur Orbans vann stórsigur í ungersku þingkosningunum í apríl og heldur meirihluta sínum þar eftir að hafa hlotið nærri helming atkvæða. Í kosningabaráttunni var Orban lýst sem verndara kristinna gilda, sem hann segir ógnað af alþjóðavæðingu og innflytjendum.