Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stöðnun, einangrun og afturför án EES

Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson / RÚV
EES-samningurinn lifir góðu lífi og hætta væri á einangrun, stöðnun og afturför ef horfið væri frá honum. Þetta er niðurstaða skýrslu starfshóps um EES-samstarfið sem kynnt var í dag. Utanríkisráðherra segir samninginn einstakan og útilokað að hægt væri að ná sambærilegum samningi í dag.

Skýrslan var eitt ár í smíðum og er ein viðamesta úttekt sem gerð hefur verið á eðli og umfangi EES-samningsins síðan hann tók gildi fyrir 25 árum. Lagt er mat á þann ávinning sem Ísland hefur haft af samningnum og lagarammann sem innleiddur hefur verið í samskiptum EES-ríkjanna og ESB. Fallið var frá því að skoða áhrif Brexit á EES-samninginn, enda staðan þar sú að ómögulegt er að segja til um hver niðurstaðan verður.

Afdráttarlaus niðurstaða

Niðurstaða starfshópsins er afdráttarlaus. Allir viðmælendur hópsins, aðrir en fulltrúar samtakanna Frjálst land og Nei til EU í Noregi, eru á því að EES-samningurinn lifi góðu lífi og hann sé til verulegs gagns og ávinnings fyrir þá sem starfa innan ramma hans.

Raunar er gengið lengra og sagt að stæðu Íslendingar utan lagasamstarfsins á EES-vettvangi og ætluðu að starfa í krafti heimasmíðaðra reglna yrði mikil hætta á einangrun, stöðnun og afturför í þjóðlífinu öllu.

Þetta eigi einkum við á sviði efnahags og atvinnulífs og tekur utanríkisráðherra undir þessi orð. „Ég er algjörlega sannfærður um það að við vorum rétt þjóð á réttum stað þegar að EFTA, sem var miklu stærra heldur en það er í dag, samdi við Evrópusambandið með þessum hætti. Þetta er einstakur samningur, við erum með okkar eigin stofnanir, okkar eigin dómstól það sér hver maður að það væri erfitt ef ekki ómögulegt fyrir EFTA að ná því í dag. Hvað þá að við myndum ná því í tvíhliða samningum.“

Varðar Íslendinga miklu

En það eru ekki bara fyrirtæki og stofnanir sem hafa haft ávinning af EES-aðild. Frjáls för fólks er einn af hornsteinum samningsins og veitir hann Íslendingum rétt til að búa og starfa innan alls EES-svæðisins án takmarkana. Í skýrslunni eru rakin nokkur dæmi.

Þannig hefur EES-samningurinn gert um 40 þúsund Íslendingum kleift að stunda nám úti um alla Evrópu í gegnum menntaáætlun ESB.  Sömuleiðis veitir Evrópska sjúkratryggingakortið  sjúklingum rétt til að sækja sér heilbrigðisþjónustu til annarra aðildarríkja EES og fá endurgreiddan útlagðan kostnað. Á síðustu þremur árum hafa 150 þúsund slík kort verið gefin út hér á landi.

Þá er það fyrir tilstilli EES-samningsins sem símnotendur þurfa ekki að borga himinhá gjöld fyrir símnotkun erlendis. Gjaldskráin er sú sama á öllu EES-svæðinu og það hefur væntanlega sparað íslenskum símnotendum verulegar fjárhæðir.

Rætt er við Björn Bjarnason, formann starfshópsins, í spilaranum hér fyrir ofan.