Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Stjórnvöld flýti sér hægt

12.01.2012 - 22:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Engin ástæða er til að flýta sér við að setja ný lög um staðgöngumæðrun segir félagsráðgjafi. Nær væri að gefa undanþágur frá núverandi lögum til að kanna hvort úrræðið henti íslenskum aðstæðum.

VG stóð í kvöld fyrir opnum fundi um staðgöngumæðrun en málið verður væntanlega áberandi á alþingi eftir helgi því á þriðjudag verður fjallað um þingályktunartillögu um staðgöngumæðrun. Helga Sól Ólafsdóttir, einn frummælanda á fundinum segir skýrt að hagsmunir barnsins verði framar að öllu að hafa í fyrirrúmi. 

Helga segir ýmis álitamál og lagaflækjur fylgja staðgöngumæðrun. „Viljum við hafa þetta þannig að fólki er bannað að koma með barnið til landsins, er þá í lagi að bíða þar til þú hefur búið í því landi í smá tíma, ættleitt barnið og komið síðan heim, eiga að vera fjársektir - og verður þetta ekki þannig að þeir efnameiri borgi sektina og þeir efnaminni eru þá undanskildir. Fangelsi - yrði það þá skilorðsbundið, óskilorðsbundið. Hverjir færu í fangelsi, báðir aðilar eða bara einn aðili?“

Helga telur að allt kapp sé best með forsjá. „Það er spurning um hvort menn eigi að flýta sér, og hvort það væri ekki bara gagnlegra að gera undanþágur frá núverandi lögum, til þess að kanna hvort þetta úrræði henti í raun og veru íslenskum aðstæðum.“