Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stjórnvöld eru skuldbundin barnabókum

Mynd: EPA / EPA

Stjórnvöld eru skuldbundin barnabókum

13.03.2017 - 17:44

Höfundar

Fyrir tæpum mánuði voru samtökin Síung endurvakin, en þau hafa legið í dvala um nokkurra ára skeið. Síung eru samtök íslenskra barna- og unglingabókahöfunda. Rithöfundarnir Gunnar Helgason og Margrét Tryggvadóttir eru bæði meðlimir samtakanna og heimsóttu Víðsjá til að ræða um stöðu íslenskra barnabóka.

Umræðan einkennist af neikvæðni

„Okkur er mikið niðri fyrir, vegna þess að við erum svo oft sett hjá í allri umræðu um bókmenntir, eða um læsi, eða um það sem okkur finnst skipta máli í stóra samhenginu,“ segir Gunnar. 

Margrét segir umræðu um barnabækur skipta miklu máli, en hún sé á villigötum. „Hún snýst mjög mikið um að strákar lesi ekki, það eru ekki góð skilaboð til að senda strákum,“ segir Margrét og ítrekar að umræðan einkennist af neikvæðni.

Bækur aldrei nefndar í Hvítbókinni

Mennta- og menningarmálaráðuneytið birti Hvítbók um umbætur í menntun í júní 2014 og þar sem lagt er mat á stöðu menntakerfisins og hugmyndir kynntar að forgangsverkefnum og leiðum til að ná árangri. 

„Í hvítbókinni kemur orðið barnabók aldrei fyrir, bók kemur aldrei fyrir, bókasafn kemur aldrei fyrir og lausnirnar sem þar eru lagðar fram eru tæknilegar, eins og lestur sé íþróttagrein en ekki eitthvað sem þú gerir fyrir sjálfan þig. Það er eins og börnin séu að læra að lesa til þess að þau geti gert skattskýrsluna sína og lesið umbúðir á matvælum,“ segir Margrét og segir barnabókina verða undir í umræðunni. 

Lausnin fólgin í barnabókum

„Eins og ég sé þetta er barnabókin lausnin á öllum þessum vandamálum sem eru yfirvofandi,“ segir Gunnar og nefnir minnkandi áhuga á bókum og lestri. Hann tekur einnig dæmi um grunnskóla sem sett hefur lestur í stundarskrá, en í kjölfarið segir hann afköst hafa aukist til muna í öðrum námsgreinum. 

Vantar stuðning frá stjórnvöldum 

„Það er enginn opinber stuðningur við barnabækur á Íslandi, [...] engir útgáfustyrkir til útgefenda sérstaklega fyrir barnabækur, sem eru oft mjög dýrar í framleiðslu,“ segir Margrét en tekur þó fram að barnabókahöfundar hafi í auknum mæli fengið listamannalaun síðustu ár. Hins vegar sé ekkert í regluverkinu sem tryggi að svo verði áfram. Hér ráði áhugi og skilningur valnefndarinnar för. 

Bókasöfn anna ekki eftirspurn

Gunnar nefnir fjársvelti bókasafna, sem ættu að tryggja jafnan aðgang að lesefni. „Allir krakkar ættu að hafa aðgang að þessum bókum sem þó eru gefnar út, en það er ekki þannig. [...] Aðalmálið er að börn fái bækur um sig og sinn raunveruleika.“ 

Margrét tekur undir þetta og segir börn vilja lesa það sem vinir þeirra lesa, en biðlistar á bókasöfnum séu langir og bókasöfn úti á landi oft og tíðum fátækleg sökum fjárskorts. 

Við fyllum ekki YouTube af íslensku efni

„Það þarf næði til þess að lesa bók og við þurfum að tryggja að börn fái næði,“ segir Margrét. Hún segist ekki vera mótfallin spjaldtölvum og símanotkun, en ítrekar að afþreyingarefnið, sem þar býðst, sé nær einungis á ensku. „Við getum aldrei, sem samfélag, fyllt YouTube af íslensku efni. En við getum mjög auðveldlega búið til frábærar barnabækur handa öllum börnum, þar sem þau finna sig í, en það gerist ekki án opinbers stuðnings.“

Íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig barnabókaútgáfu

Margrét bætir því við að íslensk stjórnvöld hafi skuldbundið sig til þess að sjá til þess að barnabækur séu skrifaðar og þeim sé dreift. „Barnabækur sem endurspegla uppruna og samfélagslega stöðu barnanna - og opna þeim glugga út í heim. Þetta stendur í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem var lögfestur hér á landi árið 2012.

Athugasemd:
Í viðtalinu kom til tals að poppsöngvari nokkur hefði þegið sex milljónir fyrir flutning lags um lestur, í lestrarátaki stjórnvalda. Því skal haldið til haga, að við athuguðum málið eftir bestu getu, til að koma í veg fyrir misskilning, og komumst að því að greiðslur menntamálaráðuneytisins fyrir tónlistina í þessu verkefni, sem voru fimm milljónir, sneru aðeins að höfundarrétti og afnotum af laginu og nýja textanum, sem saminn var af þessu tilefni. Hvernig, eða hvort söngvarinn fékk greitt fyrir vinnu sína kemur ekki fram í svari ráðuneytisins.