Stjörnurnar metast á Met Gala

Mynd: EPA-EFE / EPA

Stjörnurnar metast á Met Gala

08.05.2019 - 15:39
Met Gala, einn stærsti tísku- og listviðburður ársins fór fram nú á mánudagskvöld þar sem stjörnurnar kepptust um að vekja sem mesta athygli í ýmiskonar íburðarmiklum flíkum. En hverjum tókst ætlunarverkið og hverjir hefðu átt að halda sig heima? Karen Björg Þorsteinsdóttir fór yfir bestu flíkurnar, og nokkrar verri, í tískuhorni vikunnar.

Eins og alltaf var ákveðið þema á hátíðinni en að þessu sinni var það innblásið af ritgerð Susan Sontag, Notes on Camp, sem eru hugleiðingar hennar um svo kallaða „Camp“ tísku. „Camp“ einkennist af ýkjum og sjálfshæðni en Anna Wintour, ritstjóri Vogue sem hefur stjórnað hátíðinni síðan 1995, sagði að hægt væri að leika sér töluvert með þemað.  

Og það var það sem stjörnurnar gerðu, kjólarnir, höfuðskrautið, jakkarnir og skórnir voru eins mismunandi og þeir voru margir. Mörgum þótti meðstjórnendum hátíðarinnar, Lady Gaga, Harry Styles, Serenu Williams og yfirhönnuði Gucci, Alessandro Michele, takast vel upp í fatavali. Lady Gaga skipti til að mynda fjórum sinnum um búning og Serena Williams braut staðalímyndir þegar hún mætti í strigaskóm. 

Mynd með færslu
 Mynd: Justin Lane - EPA
Alessandro Michele, Harry Styles, Lady Gaga og Serena Williams

Það voru hins vegar margir sem stóðu upp úr og vöktu athygli á bleika dreglinum. Listamaðurinn og söngvarinn Billy Porter mætti til dæmis sem einhvers konar sólguð og var augljóslega innblásinn af egypskri goðafræði. 

Leikarinn Jared Leto vakti líka töluverða athygli í glæsilegum rauðum kjól frá Gucci og setti toppinn yfir i-ið með því að bera líkan af sínu eigin höfði undir hendinni. Leikarinn Ezra Miller sem heimsótti Ísland fyrir stuttu ruglaði svo marga í ríminu með óvenjulegri förðun þar sem andlit hans var þakið augum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Justin Lane - EPA
Billy Porter, Jared Leto og Ezra Miller

Konurnar létu sitt heldur ekki eftir liggja, fatahönnuðurinn Alexa Chung þótti vera í ákaflega vel heppnuðum kjól úr eigin línu. Leikonurnar Lena Dunham og Jemima Kirke vöktu athygli í einhvers konar latex kjólum auk þess að vera með sundhettur. Leikkonan Zendaya átti svo sannkallað Öskubusku augnablik þegar kjóllinn hennar stækkaði og lýstist upp eins og fyrir töfra, þó svo að líklegt verður að teljast að einungis hafi verið um tækni að ræða. 

Mynd með færslu
 Mynd: Justin Lane - EPA
Zendaya, Lena Dunham, Jemima Kirke og Alexa Chung

Ofurmódelin Kendall Jenner og Hailey Bieber þóttu líka af mörgum vera í einstaklega vel heppnuðum kjólum. Kendall var áberandi í appelsínugulum fjaðrakjól frá Versace en Hailey var látlausari í ljósbleikum síðum kjól sem minnti ef til vill á brúðarkjól. Hún giftist auðvitað söngvaranum Justin Bieber fyrir stuttu og hver veit nema það hafi veitt henni innblástur. Sú sem mörgum þótti hins vegar best klædd var leikkonan Saoirse Ronan sem klæddist drottningarlegum glimmer- og pallíettukjól frá Gucci. 

Mynd með færslu
 Mynd: Justin Lane - EPA
Kendall Jenner, Saoirse Ronana og Hailey Bieber

Sumir voru svo í umdeildari flíkum eins og til að mynda söngkonan Celine Dion sem var silfurlituðum kögurkjól með einhvers konar kórónu á höfðinu. Sönkonan Katy Perry tók það hins vegar skrefinu lengra og mætti sem ljósakróna. Hún bætti svo um betur í eftirpartýi hátíðarinnar þar sem hún mætti klædd sem hamborgari. 

Mynd með færslu
 Mynd: Justin Lane - EPA
Katy Perry og Celine Dion

Hlustaðu á umræðuna um stjörnurnar á Met Gala í spilaranum hér fyrir ofan. 

Tengdar fréttir

Hönnun

Svanskjóll Bjarkar til sýnis á Met Gala