Stjörnur í eina sæng með heitustu hönnuðunum

Mynd: Beyoncé / Instagram

Stjörnur í eina sæng með heitustu hönnuðunum

02.05.2019 - 11:29
„Samstörf“ (e. collaborations) eru engin sérstök nýjung í tískuheiminum en einstöku sinnum skjóta upp kollinum samstörf sem verða að teljast í meira lagi áhugaverð og spennandi. Karen Björg Þorsteinsdóttir fór yfir nokkur sem væntanleg eru árið 2019 í tískuhorni vikunnar.

Í vikunni kom í ljós að sjálf Beyoncé er á leiðinni í samstarf með Adidas sem fjölmargir eru spenntir fyrir. Býflugnadrottningin birti mynd á Instagram þar sem hún er umkringd fjöldanum öllum af skópörum en búist er við að samstarfið muni felast bæði í skóm og fatnaði. 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by Beyoncé (@beyonce) on

Gucci er um þessar mundir í samstarfi við Disney þar sem ætlunin er að hanna og selja töskur til heiðurs Mikka mús sem verður níræður á árinu. Töskurnar eru harðar og eru alveg eins og Mikka mús haus og því óvíst hvort þær séu sérstaklega meðfærilegar.

Kent & Curwen er breskt fatamerki sem David Beckham starfar með og nú er væntanleg frá þeim fatalína sem byggir á sjónvarpsþáttunum Peaky Blinders en Beckham sjálfur er víst forfallinn aðdáandi þáttanna. Ef þig vantar „sixpensara“ eða vesti þá gæti þetta verið staðurinn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Pinterest
Óvíst er hvort að Mikka mús Gucci taskan sé sérstaklega þægileg í meðförum

Franska tískuhúsið VETEMENTS og íþróttaverslunin Oakley hafa slegið saman í alveg hreint merkileg sólgleraugu, svo ekki sé meira sagt. Um er að ræða klassísk hjólagleraugu sem leggjast vel að andlitinu en eru svo skreytt með göddum. Við mælum kannski ekki með þeim í hjólaferðir sumarsins en þau gætu verið flott í Eurovision partýið. 

Virgil Abloh yfirhönnuður Louis Vuitton er sennilega einn heitasti hönnuður dagsins í dag en hann hefur hafið samstarf með Evian vatnsflösku fyrirtækinu þar sem hann mun hanna umhverfisvænar vatnsflöskur úr 100% endurunnu plasti. Markmiðið hjá Evian er að nýta sér vinsældir Virgils til að breiða umhverfisvænum boðskap eins langt og hægt er. 

Mynd með færslu
 Mynd: Pinterest
Umhverfisvænar vantsflöskur og stórhættuleg hjólagleraugu

Síðast en ekki síst ber svo að nefna spennandi samstarf skóverslunarinnar Vans sem er nú á leið í samstarf við galdraheim Harry Potter. Enn sem komið er er ekki mikið vitað um samstarfið annað en að einblínt verði á heimavistirnar fjórar, Gryffindor, Ravenclaw, Slytherin og Huffelpuff. Ef þú veist ekki nú þegar hvaða heimavist þú tilheyrir þá mælum við með flokkunarhattsprófinu sem er að finna á Pottermore. 

Mynd með færslu
 Mynd: Vans
Harry og Ron eru án efa himinlifandi með samstarfið