Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stjórnmálamenn verði að vanda sig

31.03.2016 - 09:04
Mynd: - / Samfélagið
Vilhjálmur Árnason, heimspekiprófessor og stjórnarformaður Siðfræðistofnunar Háskóla íslands, segir að vegna trausts og trúverðugleika í íslenskum stjórnmálum séu aflandsfélagsmál forystumanna mjög slæm. Stjórnmálamenn verði að vanda sig.

„Einmitt vegna þessa trausts eða trúverðugleika, sem er mikilvægast að byggja upp, eru þessi mál svona ótrúlega slæm. Ekki bara það að upp hafi komist um forystumenn í stjórnmálum sem ættu að vera til fyrirmyndar í málum sem þetta varðar. Þeir stjórnmálamenn sem veljast til forystu þurfa að vanda sig, sérstaklega ef þeir eiga peninga. Þeir þurfa að fara varlega í þessum málum og alls ekki haga sér á þann hátt sem þeir ætlast til þess að borgararnir geri ekki. Þarna eru ákveðnar kröfur, ákveðnar fórnir sem menn í svona stöðum verða að færa, ef þeir líta svo á að séu fórnir,“ sagði Vilhjálmur á Morgunvaktinni á Rás 1.