Stjórnin að brjóta stjórnskipunarhefðir

12.03.2015 - 21:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, segir að sér virðist sem ríkisstjórnin brjóti stjórnskipunarhefðir með því að afturkalla aðildarumsókn að Evrópusambandinu án þess að bera málið undir Alþingi. Hún segir að málið verði rætt á þingi, hvort sem ríkisstjórninni líki það betur eða verr.

„Við fyrstu sýn virðist þetta vera þannig að hér sé verið að brjóta stjórnskipunarhefðir þar sem Alþingi hefur samþykkt ályktun um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Hefðin hefur verið sú að þá þarf Alþingi að samþykkja breytinguna á þeirri stefnu ef henni á að breyta,“ segir Katrín. „Það var túlkun ríkisstjórnarinnar í fyrra þegar hún lagði fram þingsályktunartillögu um að aðildarumsóknin skyldi kölluð til baka. Mér sýnist satt að segja að ríkisstjórnin hafi einhvern veginn heykst á því að fara að nýju með það mál inn. Ég fæ ekki séð að þetta sé í takt við góðar stjórnskipunarhefðir.“

Aðspurð hvað henni finnist um þá aðferð sem ríkisstjórnin hefur valið svarar Katrín. „Mér finnst það ekki ganga. Mér sýnist það vera til marks um það að ríkisstjórnin þori ekki að mæta Alþingi í þessu máli og að ríkisstjórnin þori ekki að horfa framan í eigin kosningaloforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald málsins.“

Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ákveðið að bera málið ekki undir Alþingi segir Katrín að það verði tekið upp á þeim vettvangi. „Ég á nú von á því að þetta verði rætt á Alþingi hvort sem stjórnvöldum líkar það betur eða verr.“

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi