Stjórnarskráin úrelt og hættuleg

20.10.2019 - 14:20
Mynd: Skjáskot / RÚV
Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins, sagði að íslenska stjórnarskráin sé úrelt og að sumu leyti hættuleg, hana verði að uppfæra. Hún sagði í Silfrinu í dag að mörg dæmi væru um að Alþingi hefði goldið fyrir það og stjórnir sprungið vegna þess að tillögur stjórnlagaráðs hafa ekki verið gerðar að grundvelli stjórnarskrárinnar eins og meirihluti kjósenda samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir sjö árum.

„Þetta er ekki tapað stríð,“ sagði Katrín um baráttu Stjórnarskrárfélagsins fyrir því að tillögur stjórnlagaráðs verði grundvöllur stjórnarskrár Íslands. Tveir þriðju kjósenda samþykktu þá tillögu í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012. Hún segir að baráttan standi enn. „Þetta er gufuskip sem þarf að snúa. Ég held að stóra vandamálið sé að í þinginu sé svo mikið af fólki sem áttar sig ekki á því að það er þjóðin sem er stjórnarskrárgjafinn.“

„Allt vald sprettur frá þjóðinni. Þið megið ekki ráða hvaða völd þið hafið, þið fáið það bara að láni,“ sagði Katrín og kvað að sífellt fleiri gerðu sér grein fyrir því.

Þingið lent í vanda því stjórnarskránni var ekki breytt

Ný stjórnarskrá hefði getað orðið góður upphafspunktur fyrir nýja Ísland sagði Katrín. „Mér finnst svo merkilegt að á þeim sjö árum frá því að þeir sem mættu á kjörstað sögðu að þetta væri það sem við ætluðum að leggja til grundvallar getum við nefnt fullt af dæmum þar sem það fer illa fyrir Alþingi, stjórnir springa og annað, vegna þess að það er ekki búið að uppfæra kerfið. Þetta er svolítið eins og tölva sem neitar að uppfæra stýrikerfið sitt og skilur ekki hvers vegna hún er alltaf að krassa. Þetta gengur náttúrulega ekki. Við þurfum auðvitað að uppfæra stjórnarskrána okkar. Hún er úrelt. Hún er ekki nógu góð og að sumu leyti er hún bara pínu hættuleg.“

Katrín sagðist telja ólíklegt til árangurs að þingmannanefnd næði árangri við breytingu stjórnarskrárinnar. Hún vísaði til þess að slíkt hefði ekki gengið til þessa þrátt fyrir margar tilraunir á áratugunum sem liðnir eru frá stofnun lýðveldis. Búið væri að breyta stjórnarskrá sex sinnum en aðeins einu sinni svo máli skipti, þegar mannréttindakaflinn var tekinn inn í stjórnarskrá 1995.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Bindur litlar vonir við stjórnarskrárnefnd

Þátttakendur í þjóðaratkvæðagreiðslu samþykktu að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar stjórnarskránni en ef þingmennirnir geta fundið leið til að gera hana enn betri er það frábært, sagði Katrín. Hins vegar gæti Alþingi ekki litið svo á að tillögur stjórnlagaráðs væru einhvers konar hlaðborð. „Þetta virkar ekki svona. Stjórnarskrá er heildarplagg. Hérna eru alls konar hlutir sem eru búnir að stilla sig saman gagnvart hvoru öðrum. Hvernig virkar þetta saman, aðfararorðin og annað. Það er ekki hægt að taka eitt og eitt út. Allir þessir þræðir eru ofnir saman.“ Hún sagðist vona að stjórnarskrárferlið sem nú er unnið eftir gangi vel en trúri því ekki að vegferðin skili af sér þeirri heildstæðu stjórnarskrá sem þjóðin eigi skilið.

Krefjast lýðræðis

Stjórnarskrárfélagið, Efling stéttarfélag og Öryrkjabandalag Íslands, sendu í dag frá sér ályktun um stjórnarskrármál með fyrirsögninni Við krefjumst lýðræðis. Þar segir að sjö ár séu liðin síðan tveir þriðju hlutar kjósenda samþykktu að tillögur stjórnlagaráðs yrðu grundvöllur nýrrar stjórnarskrár. „Við krefjumst þess að lýðræðislegar grundvallarreglur séu virtar í
landinu. Alltaf og afdráttarlaust. Við krefjumst þess að Alþingi virði vilja kjósenda og lögfesti stjórnarskrá fólksins án tafar,“ segir í ályktuninni.

Í tilefni þess að sjö ár eru í dag frá þjóðaratkvæðagreiðslunni hefur Stjórnarskrárfélagið boðað til fundar síðdegis. Þar verður boðið upp á afmælisköku og skemmtiatriði.

Hér má sjá Silfrið í heild sinni.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi