Stjórnarskrá Mjanmar endurskoðuð

19.02.2019 - 11:46
Erlent · Asía · Mjanmar
Mynd með færslu
Þingið í Mjanmar. Mynd:
Meirihluti þingsins í Mjanmar samþykkti í morgun að skipuð yrði nefnd til að endurskoða stjórnarskrá landsins. Gildandi stjórnarskrá tryggir hernum minnst fjórðung sæta á þingi landsins.

Lýðræðisfylkingin, flokkur Aung San Suu Kyi, leiðtoga Mjanmar, vill að breytingarnar verði í höfn fyrir áformaðar kosningar á næsta ári.

Þótt Lýðræðisfylkingin hafi unnið stórsigur í þingkosningunum 2015 varð flokkurinn að fara í samstarf með hernum sem ræður öllum ráðuneytum sem fara með öryggismál í landinu.

Gildandi stjórnarskrá frá 2008 kveður auk þess á um að herinn fái sjálfkrafa fjórðung þingsæta, þannig að hann getur beitt neitunarvaldi gegn breytingum á stjórnarskránni.

Í henni er auk þess kveðið á um að forseti geti ekki átt erlendan maka, sem útilokar að Aung San Suu Kyi geti borið þann titil, en eiginmaður hennar var breskur.

Yfirmaður hersins í Mjanmar kvaðst í viðtali við japanskt dagblað í síðustu viku viðurkenna að lagfæra þyrfti stjórnarskrána, en ekki það mikið að megininntak hennar breyttist.

Skipa á 45 manna nefnd til að endurskoða stjórnarskrána. Átján nefndarmanna verða úr Lýðræðisfylkingunni, átta frá hernum, en afgangurinn úr hinum ýmsu stjórnmálafylkingum Mjanmar.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi