Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stjórnarmyndunarviðræður eftir hádegið

04.11.2017 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Fulltrúar flokkanna fjögurra funda áfram í dag um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Aukinnar bjartsýni gætir hjá sumum  þingmönnum flokkanna eftir fund gærdagsins. Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs segir að staðan ætti að skýrast eftir helgina.

Fyrsti fundur VG, Framsóknarflokks, Pírata og Samfylkingarinnar um myndun nýrrar ríkisstjórnar stóð frá klukkan 10 og fram á síðdegið í gær á heimili formanns Framsóknarflokksins í Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi og næsti fundur flokkanna verður eftir hádegið í dag í húsnæði Alþingis. Lítið fæst uppgefið um gang mála.

Þingmenn þessara flokka sem fréttastofan hefur rætt við segjast bjartsýnni eftir fund gærdagsins en þeir voru fyrir hann, þótt enn sé allt of snemmt að slá einhverju föstu.  Katrín Jakobsdóttir formaður VG sagði í sagði í samtali við fréttastofuna fyrir hádegi að staðan ætti að skýrast ekki seinna en á mánudag.

Eins og fram kom í fréttum í gær taka alls tólf manns þátt í viðræðunum, þrír frá hverjum flokki. Skipt var upp í tvo hópa þar sem annar hópurinn fór yfir stóru málin sem ný ríkisstjórn þarf að takast á við og flokkarnir eru sammála um að blasi við, en hinn hópurinn fór yfir mál þar sem meiri ágreiningur er milli flokkanna.

Þingflokkur Framsóknarflokks kom saman til  óformlegs fundar í gær og reiknað er með að þingflokkurinn komi saman til fundar á morgun. Þingflokkur Samfylkingarinnar kom einnig saman til fundar í gærj og situr á fundi núna og þingflokkur Pirata fundaði eftir fundinn í Syðra-Langholti í gær og mun hittast á ný á morgun.
 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV