Stjórnarformaður Kadeco skilur gagnrýni á sig

04.07.2018 - 20:02
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Sölu fasteigna Kadeco á Keflavíkurflugvelli er nánast lokið og í framhaldinu verður hugað að því hvernig best sé að nýta verðmætt landsvæði félagsins í kringum flugvallarsvæðið. Nýr stjórnarformaður segist skilja að fólk gagnrýni að svo ungur maður gegni embættinu, en hann muni gera eins vel og hann geti.

Kadeco, þróunarfélag Keflavíkurflugvallar var stofnað árið 2006. Upphaflegu hlutverki félagsins er að mestu lokið, sem var einkum að selja eignir varnarliðsins á svæðinu. Á nýliðnum aðalfundi var fjallað um endurskoðað hlutverk félagsins. 

Það lýtur að nýtingu lands sem félagið hefur við Keflavíkurflugvöll, en á þessari mynd má sjá hvernig það liggur. Allt innan gulu línunnar er á hendi Kadeco, fyrir utan flugvöllinn sjálfan innan bláu línunnar, en svæði Kadeco er um 55 ferkílómetrar. Til samanburðar má geta þess að Ásbrúarhverfið er einn fimmtugasti af því svæði.

„Nú er það verkefni að finna samstarfsflöt á því hvernig ríkið sem á landið, sveitarfélögin sem hafa skipulagsvaldið og Isavia sem er með land- og skipulagsvald geta unnið sameiginlega að því að þróa þetta verðmæta og mikilvæga land til framtíðar. Ekki til nokkurra ára heldur jafnvel til áratuga svo vel takist til með hagsmuni allra að leiðarljósi. Hagsmuni íbúanna á Suðurnesjum, hagsmuni fyrirtækjanna og hagsmuni ríkissjóðs,“ segir Ísak Ernir Kristinsson nýr stjórnarformaður Kadeco.

Hann segir að Kadeco hafi þegar skilað um 14 milljarða króna ávinningi til ríkissjóðs. Nokkuð hefur verið rætt um skipan hans sem stjórnarformanns. Hann er 24 ára nemi í viðskiptafræði.

„Reynsla er kannski ekki aldur. Ég skil að fólk hefur á því skoðanir að 24 ára maður sér orðinn stjórnarformaður í mikilvægu verkefni, mikilvægu fyrirtæki í eigu ríkisins. Ég skil þá gagnrýni.“

Hann segist hafa verið í stjórnun, bæði í starfi og af áhuga mjög lengi, bæði í einkarekstri, en einnig virkur í stjórnmálum, einkum á sveitarstjórnarstiginu.

„Fjármála- og efnahagsmálaráðherra er tilbúinn til þess að gefa ungu fólki tækifæri. Ég þakka traust hans og ég ætla að standa undir þeirri ábyrgð og þeim skyldum sem eru lagðar á mínar herðar og ætla að gera eins vel og ég get,“ segir Ísak Ernir Kristinsson.
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi