Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stjórnarandstæðingar slitu viðræðum

19.03.2019 - 09:01
Mynd með færslu
Lögreglumaður ræðst á fréttamann í mótmælum í Managua á laugardag. Mynd:
Bandalag stjórnarandstöðunnar í Níkaragva sleit í gærkvöld friðarviðræðum við ríkisstjórn Daniels Ortega og mótmælti framgöngu öryggissveita gegn mótmælendum í landinu. 

Lögregla beitti táragasi gegn mótmælendum í höfuðborginni Managua um helgina þegar fólk safnaðist þar saman til þess að krefjast þess að pólitískir fangar yrðu leystir úr haldi. Um 100 voru teknir höndum, en var sleppt eftir yfirheyrslur.

Friðarviðræður stjórnvalda og stjórnarandstæðinga í Níkaragva hófust 27. febrúar, en þá hafði verið mikil ólga í landinu. Óánægja með Ortega og stjórn hans hefur færst í aukana, en hann og eiginkona hans Rosario Murillo  eru sökuð um einræðistilburði.

Frá apríl í fyrra og fram í október voru hundruð tekin höndum og minnst 325 létu lífið í mótmælum í landinu. Við upphaf viðræðna í síðasta mánuði var 100 pólitískum föngum sleppt og þeir settir í stofufangelsi. Til viðbótar var 50 sleppt í síðustu viku með sömu skilyrðum og hinum fyrri.

Réttindasamtök í Níkaragva segja að meira en 700 pólitískir fangar séu í haldi í fangelsum landsins.

Stjórnarandstæðingar sögðu í tilkynningu í gærkvöld að ljóst væri að viðræður myndu ekki skila árangri. Ortega hefur meðal annars hafnað kröfum þeirra um að flýta kosningum, en núverandi kjörtímabil er til 2021.